144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Mér finnst þetta í öllu falli vera, og alveg óháð því hvað hv. þingmaður heldur, eitthvað það mikilvægasta rannsóknarefni sem þarf að fara fram og við þurfum að ræða þessi mál. Það var ágætlega rökstutt í skýrslu McKinsey sem kom út í aðdraganda kosninganna síðustu að þetta er vandamál á Íslandi miðað við aðrar þjóðir. Ég tiltók opinbera kerfið sérstaklega en McKinsey var ekki síður að tala um verslunarrekstur á Íslandi, að tekjur á hverja einingu í verslunarhúsnæði væri miklu lægri en sambærileg stærð í nágrannaríkjunum. Mér finnst þetta mjög forvitnilegt og finnst mjög áhugavert að skoða íslenskt samfélag út frá þessu. Þetta þýðir að verslunin þarf að hafa of marga starfsmenn út af því að húsnæðið er of stórt. Hún kæmist af með minna húsnæði og færri starfsmenn og mundi þá ná meiri hagnaði á hvern starfsmann og hverja unna einingu, meiri framleiðni.

Þegar kemur að orkugeiranum finnst mér einstaklega áhugavert að sjá að tekjur á hverja selda orkueiningu er alveg fáránlega lítil, vegna þess að við höfum verið að selja svo rosalega stórum og orkufrekum kaupendum á mjög lágu verði. Það var alger opinberun að sjá þessa stærð. Þarna hafði maður eitthvert tæki í höndunum til að meta, heyrðu, þetta er ekki góð stefna, ef við ætlum að virkja yfir höfuð eigum við þá ekki að fá meiri tekjur á hverja einingu? Í opinbera geiranum finnst mér þetta birtast þannig og ég rakti það í ræðunni. Ég veit að hv. þingmaður er ekki að gera því skóna að ég sé að segja að fólk sé ekki duglegt. Dugnaðurinn er náttúrlega gríðarlegur meðal Íslendinga og fólk vinnur hér mjög mikið og vílar ekki fyrir sér að gera það. En ef við mundum gera ákveðnar kerfisbreytingar eins og að efla heilsugæsluna eða eitthvað svoleiðis þá mundum við fá meira út úr því vinnuframlagi. Það er verkefnið, meira út úr dugnaðinum.