144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessi viðbrögð. Það er rétt að McKinsey-skýrslan svokallaða gerir því skóna að bæta mætti framleiðni í ýmsum geirum og horfði til verslunarreksturs, ég man ekki hvað hún sagði um opinbera geirann en þar staldra ég fyrst og fremst við.

Ég held að það sé alveg rétt að uppbygging kerfa skiptir máli. Það skiptir til dæmis máli að vera með öfluga heilsugæslu til að forða því að við aukum aðsóknina að bráðavakt spítalanna svo að dæmi sé tekið. Skipulag skiptir máli, að við fáum þannig sem mest út úr hverjum vinnandi manni. En ég held hins vegar að þegar við horfum til dæmis á heilbrigðiskerfið þá eru vissir þættir þar sem þurfa ákveðna grunneiningu. Það þarf mannskap sem sinnir umönnun, sem sinnir vissum grunnþáttum. En ég held að þegar menn hafa verið að staðhæfa að hægt sé að fækka störfum í opinberum rekstri á Íslandi, þá held ég að almennt sé það ekki rétt. Þannig sýndi OECD-rannsókn til dæmis að við værum að nýta hverja krónu í heilbrigðiskerfinu betur en nánast alls staðar annars staðar.