144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera að umtalsefni þessi trúarbrögð að skattalækkanir auki tekjur. Á sama tíma og menn segjast vera að lækka skatta bæta þeir við alveg ótrúlega mörgum gjöldum í sambandi við neyslu. Það kemur illa við ákveðna hópa og tengist líka öryrkjunum, sem hv. þingmaður nefndi, sem hafa hvað lökust kjörin. Við horfum upp á það að í eina skiptið sem kannski hefði verið tækifæri til að segja, eins og var í fjárlögunum, að bætur til lífeyrisþega ættu að hækka um 3,5%, þá leiðrétta menn það í þjóðhagsspánni og fara niður í 3% í staðinn fyrir að leyfa öryrkjum að njóta vafans og fá þá hugsanlega meira en nemur verðbólgu næsta árs.

Þetta viðmót veldur mér áhyggjum í þessu samfélagi. Þegar við heimsóttum lögregluna og vorum að skoða hver væri mesti áhættuþátturinn í íslensku samfélagi hvað varðar hryðjuverk eða önnur voðaverk, hvað var þá nefnt? Það var óréttlæti, það var ójöfnuður, ósanngirni, fátækt sem var aðallega minnst á. Væri ekki betra að snúa sér að því að tryggja þessa þætti frekar en kaupa byssur?