144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svolítið sérkennilegt að á sama tíma og ríkisstjórnin er að deila út, á nokkurra ára bili, 80 milljörðum inn á lán hjá fólki og til fólks sem gengur nú um gapandi yfir því — af hverju í ósköpunum er ég að fá þessa peninga? Ég er á góðri leið með að borga mín lán, af hverju er ég að fá þetta? Þetta eru spurningarnar.

Á sama tíma búum við við þann veruleika að fólk sem er atvinnulaust á að fara á framfæri sveitarfélaganna og þá skerðast kjör þess. Það er ekki verið að bæta kjör örorku- og ellilífeyrisþega eins og hv. þingmaður fór yfir. Sú mynd sem blasir við mörgum og mun blasa enn skýrar við er hversu óréttlátt þetta er. Fyrst menn eru þó að deila 80 milljörðum út af hverju fór það þá ekki til þeirra sem hafa minnst milli handanna?