144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:24]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Jú, ég er alveg sammála því að við eigum að leggja miklu meiri pening í heilbrigðiskerfið og forgangsraða í það. Eins og skoðanakönnun ykkar pírata, sem var mjög góð, bendir til er almenningur — maður heyrir það líka úti í samfélaginu, það þarf ekki vitnanna við — fólk vill þetta og fólk hefur gríðarlegar áhyggjur af því sem er að gerast með heilbrigðiskerfið. Í nútímanum er heilbrigðiskerfið lykilatriði í öllum samfélögum og það verður að ganga. Auðvitað hefði maður viljað sjá miklu meiri peninga, ég hefði til dæmis viljað sjá, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, að eitthvað af þeim 16 milljörðum sem komu inn úr arði frá bönkunum eða Landsbankanum hefðu farið í það, bara myndarlega lagt inn í Landspítalann þannig að hann gæti til dæmis hækkað laun lækna meðal annars. Við þurfum á því að halda. Þetta er mjög alvarlegt ástand.