144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:27]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er stór spurning. Ég veit það ekki, það er náttúrlega ríkið sem semur við læknana. Auðvitað hefði maður viljað sjá það gerast og ég trúi ekki öðru en að þetta verði leyst á næstu dögum. Hæstv. forsætisráðherra talaði nýlega um það hvort ekki ætti að mynda þjóðarsátt um að taka lækna út fyrir sviga. Mér finnst það bara ágætishugmynd. Ég hefði viljað óska þess að hann hefði gert það miklu fyrr og þetta verkfall hefði aldrei farið af stað. Hann hefði alveg getað tekið þetta þjóðarsáttarhugtak sem er mjög gott og fallegt hugtak strax þegar hann sá í hvað stefndi og leyfa þessu aldrei að fara á þennan stað. Eins og kom fram í skoðanakönnun pírata vilja 90% þjóðarinnar leggja pening í heilbrigðiskerfið. Það voru 80% í skoðanakönnun um daginn sem sögðu að það ætti að semja við læknana. Ég held að þetta leysist fyrir jól þannig að við getum farið í jólasteikina.