144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli, jú, ég tel það þarft. Nú man ég ekki alveg hversu mikið fjármagn er nú þegar sett til Útlendingastofnunar, ég hreinlega man það ekki. Það eru 238 milljónir samkvæmt frumvarpinu. Þannig að það er umtalsverð hækkun miðað við það sem Útlendingastofnun hefur fengið. Nei, fyrirgefið, 236 milljónir sem eru gjöld umfram tekjur. Þetta er því umtalsverð bót. Við verðum að sjá til hvort þetta dugi til þess að ráða við öll þau verkefni sem Útlendingastofnun þarf að sinna.

Mér finnst rétt að nefna það að þetta er eðlileg þróun. Við búum í alþjóðlegri heimi, skemmtilegri að mínu mati, miklu skemmtilegri. Mér finnst mjög gaman að sjá fjölbreytt menningarlíf og ofboðslega gaman að kynnast nýjum hugmyndum og nýrri sýn á lífið. Eins og ég sagði í ræðu minni tel ég það vera mesta styrk Norður-Ameríku hvað þar er ofboðslega fjölbreytt flóra menningarheima. Kanadamenn segja alltaf að það sé enginn raunverulega frá Kanada, allir eru einhvers staðar annars staðar frá og þekkja oft ekkert endilega marga ættliði aftur í tímann. (Gripið fram í: … frá Íslandi.) Frá Íslandi til dæmis. Ég get nú sagt skemmtilega sögu um það, fyrst ég hef nokkrar sekúndur til þess. Ég var einhvern tímann á knæpu einni í Norður-Winnipeg og fór út og kona nokkur tók eftir því að ég talaði með agnarlitlum hreim, sem ég vildi meina að væri enginn, en hún tók eftir því. Hún spurði hvaðan ég væri. Ég sagði: Ég er íslenskur. Já, en hvaðan ertu? Hún hafði aldrei hitt Íslending frá Íslandi, hafði bara hitt kanadískan Íslending, „Icelandic Canadian“, eins og þeir kalla það.

Þetta er til marks um það hvernig hægt er að halda í menningu sína og arfleifð, en samt sem áður vera hluti af stærra samfélagi sem sér sig sem heild eins og Kanada, enda undurfagurt land, menningarlega og á fleiri máta.