144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Það var lítið að þakka. Mér finnst rétt að nefna það líka í samhengi við þetta að það skiptir ofboðslega miklu máli hvernig við tökum á móti útlendingum. Nú skilst mér að það sé ágætlega tekið á móti svokölluðum kvótaflóttamönnum, sem eru flóttamenn sem koma hingað undir ákveðnum formerkjum. Tekið er á móti þeim og þeim er kennt eitthvað um íslenskt samfélag og hvernig þeir eigi að fóta sig hérna. Það er hins vegar mikið um það að flóttamenn sem koma hingað en ekki undir þeim formerkjum, fá enga aðstoð, þeim er bara hent einhvern veginn inn í samfélagið og sagt að redda sér. Það er nú meira en að nefna það ef maður kann ekki tungumálið, skilur ekki endilega menninguna o.s.frv. Ef við ætlum að njóta sem mest annarra menningarheima sem geta aðlagast okkar þá þurfum við að sýna frumkvæði að mínu mati. Það kostar peninga. Við þurfum að sýna frumkvæði í því að taka vel á móti fólki og leyfa því strax að þykja vænt um land okkar, vegna þess að ef þeim þykir vænt um okkar land verður þetta allt miklu auðveldara og betra. Við getum þá vonandi forðast menningarlegan (Forseti hringir.) ágreining sem á sér stundum stað þegar ólíkir menningarheimar koma saman án þess að vera undirbúnir fyrir það.