144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig ég orðaði það sem ég sagði en ég ætla að gerast svo djarfur að standa við það, með þeim fyrirvara að ég man ekki hvernig ég orðaði það nákvæmlega. En umræðan sem á sér stað af og til á sér vissulega stað núna í hv. innanríkisráðuneyti og fer auðvitað fram hér þegar lögin eru sett, það liggur í augum uppi að lög eru rædd þegar þau eru sett hérna, yfirleitt alla vega, og vissulega þegar kemur að þessum málaflokki.

Það sem ég á við og kom kannski ekki rétt frá mér, ég hreinlega man það ekki, er að við höfum aldrei rætt grundvallarspurninguna um hvert megininntak stefnunnar eigi að vera, hvort megininntak stefnunnar sé að halda fólki úti fyrir landsteinunum eða hleypa því inn. Það liggur í eðli útlendingalaganna þegar maður les þau og hefur reynslu af þeim, sem ég hef af því ég þekki marga útlendinga og aðstoða þá ef ég get með sín mál. Það er stundum ekki hægt. Stundum verð ég að segja: Það er engin lögleg leið til þess að vera hérna, vinur. Ég lendi í þessu í mínu eigin lífi. Mér finnst ömurlegt að segja þetta við fólk sem vill vera hérna og er jafnvel að læra íslensku og farið að tala hana. Það er vegna þess að lögin sjálf eru þannig að það eru bara undantekningartilfelli sem mega vera hérna. Lögin eru gerð þannig. Það er kannski ekki undantekningartilfelli miðað við þá sem fá leyfi, en lögin byggjast á því inntaki að fólk megi ekki vera hér nema það uppfylli sérstakar kríteríur, sérstök skilyrði sem við erum búin að niðurnjörva og þrengja mjög til þess að leyfa fólki að vera. Það er þá eftir tilteknum undanþáguákvæðum, svo sem ef það eru sérfræðingastörf í boði sem við getum ekki fyllt með Íslendingum eða fólki sem er ríkisborgarar eða eitthvað þannig, eða ef hægt er að sýna fram á sérstök fjölskyldutengsl og okkur þykir beinlínis ómannúðlegt að leyfa fólki ekki að vera.

En einhver sem vill bara koma hingað og búa hérna og er ekki frá EES-svæði getur það ekki, það er engin lagaleg forsenda fyrir því yfir höfuð til staðar. (Forseti hringir.) Það eru engar undantekningar á því nema ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd geti veitt þeim ríkisborgararétt. En það þarf að ganga einhverja slíka leið. Mér þykir þetta ótækt. (Forseti hringir.) Mér þykir þetta sóun. Þetta er sóun.