144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka að mörgu leyti undir það sem hv. þingmaður segir. Það er mjög gróf mismunun sem er til staðar í þeirri löggjöf sem ákvarðar hverjir mega vera hér og hverjir ekki. Það er hins vegar ekki rétt að stefnan hafi ekki verið rædd og á hvaða forsendum við eigum að móta þá stefnu. Staðreyndin er sú að stefnan tekur fyrst og fremst mið af atvinnuhagsmunum, af atvinnu. Í þeirri greinargerð sem var gerð á vegum innanríkisráðuneytisins á síðasta kjörtímabili er lagt til að þeim áherslum verði breytt, að við gerum minna úr atvinnuhagsmunum og skoðum ýmsar manneskjulegar hliðar þessa máls, fjölskyldutengsl og löngun fólks til að vera í okkar landi, að áherslunni (Forseti hringir.) verði breytt að þessu leyti.

En það er ekki rétt að þessi umræða hafi ekki verið tekin. Hún hefur verið tekin. Og það á að halda þeirri umræðu áfram, það er rétt.