144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé vegna þess að þeir njóta sömu stöðu og aðrir, þeir fá ekki neinn forgang samkvæmt núverandi lögum. Þannig er það einfaldlega. Menn eru jafnir fyrir lögum. Eins og kerfið er uppbyggt í dag er það einfaldlega þannig að myndast hefur kúfur af umsóknum þeirra sem hingað koma til þess að sækja um hæli. Ekki hefur verið veitt nægilegt fé til þess að hægt sé að vinna þann kúf niður og á meðan situr annað á hakanum. Af hverju? Vegna þess að brýnustu hagsmunirnir eru kannski þeir að reyna að sinna þeim umsóknum sem því miður hafa dregist í sumum tilvikum og eru ákaflega flókin og erfið. Eins og hv. þingmaður sagði sjálfur í ræðu sinni áðan hefur það leitt til þess að menn eru hér upp í tvö ár án þess að komast inn. Ég get upplýst hann um það að menn eru nú stundum lengur en það. Á meðan eru þeir eiginlega í þeirri stöðu að þeir mega hvorki vera né fara og fá ekki að vinna. Það skapar kostnað fyrir íslenska ríkið og þrengingar og sorg og kvíða fyrir þá sjálfa. Þess vegna eigum við að setja peninga í þessi mál til þess að vinna þennan kúf niður öllum til hagsbóta.