144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man nú til þess að í fyrra, held ég, hneykslaðist fólk yfir því að 500 millj. kr. færu í það að halda uppi fólki sem var að bíða eftir að fá stöðu flóttamanns. Margir ímynduðu sér ranglega að þetta yrðu einhvers konar vasapeningar fyrir fólk sem væri að bíða. Sannleikurinn er sá að það fólk fær lægri upphæðir en nokkur Íslendingur gæti hugsað sér að lifa við. Hins vegar fylgir þessu ýmiss kostnaður einmitt vegna þess að fólk má ekki vinna, sem er að mínu mati hreinlega heimskulegt. Það er ekki einu sinni spurning í mínum huga um það hvað okkur þykir réttmætt. Það er bara heimskulegt að vera með fullt af fólki sem vill taka þátt í samfélaginu en má það ekki. Það vill auðga efnahaginn, það vill vinna fyrir sér en það má það ekki, það hefur ekki leyfi til þess að auðga samfélag okkar og sjálfs sín. Mér finnst það furðuleg tilhögun. Ég held að mesta sóunin liggi í reglunum sjálfum.

Að því sögðu þykir mér augljóst að ef við tækjum (Forseti hringir.) hálfan milljarð, tvöföld fjárútlát til Útlendingastofnunar og notuðum það, þá værum við samt sem áður að spara pening miðað við þær tölur sem við sáum í fyrra.