144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé eitt af því sem vakir fyrir Sjálfstæðisflokknum, hann ber auðvitað allt aðra hagsmuni fyrir brjósti en minn flokkur og flokkur hv. þingmanns. En hann hefur hins vegar ekkert verið að draga sérstaka dul á það. Að því er heilbrigðiskerfið varðar hefur Sjálfstæðisflokkurinn, obbinn af honum, verið þeirrar skoðunar að það eigi að feta sig í átt til einkavæðingar í ríkari mæli. Það er engin breyting á flokknum hvað það varðar. Breytingin sem maður sér hins vegar er hversu auðvelt það virðist vera fyrir Sjálfstæðisflokkinn að teyma Framsóknarflokkinn með sér í sömu humátt. Það eru mér vonbrigði, eins og ég dró enga dul á og felldi næstum tár af hvarmi í ræðu minni áðan, hversu hin unga forusta Framsóknarflokksins er leiðitöm Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í: Svona, svona.) Þarna vantar einhverja til þess að takast á við ofureflið.