144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki alveg rétt munað hjá hv. þingmanni að enginn hafi mótmælt því. Það lá algjörlega skýrt fyrir hver afstaðan var og hún birtist hér í þessum sal. Samfylkingin hefur verið trú sinni stefnu í þessum efnum frá því (Gripið fram í.) að hún tók til starfa sem stjórnmálahreyfing. Þetta hefur verið margítrekað á flokksþingum hennar og hefur auðvitað komið fram hér. Hefur einhver í Samfylkingunni greitt atkvæði öðruvísi en á þann veg sem ég hef hér verið að mæla fyrir? (Gripið fram í.) Enginn. (Gripið fram í.)

Að því er varðar meintan skoðanaágreining þá er það þannig, eins og hv. þingmaður á að vita af reynslunni, að í stórum flokkum eru alltaf mismunandi skoðanir. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi, hugsanlega ólíkt hv. þingmanni, að ég hef bara verið í flokkum sem leyfa skoðanaágreining. Ég treysti því að hugsanlega renni sú stund einhvern tímann upp (Gripið fram í.) að hv. þingmaður upplifi það líka, en ég dreg í efa að það verði í Sjálfstæðisflokknum.