144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni stöðuna í læknaverkfallinu og það ástand sem mér finnst furðu lítið rætt um hér á Alþingi. Í verkfallinu er ný hrina aðgerða að hefjast og vandræðin þar af leiðandi að aukast og tjónið þar með. Áhyggjur þeirra sem gerst þekkja til vaxa dag frá degi. Það er alveg ljóst að nú verður frestað rannsóknum og aðgerðum og ýmiss konar meðhöndlun í svo stórum stíl að biðlistar munu verða óviðráðanlega langir og kerfið er svo lestað fyrir að jafnvel þótt semdist á morgun eru möguleikarnir til að vinna þetta upp afar takmarkaðir í undirmönnuðu kerfi sem er undir miklu álagi. Læknar eru í auknum mæli að gefast upp og segja upp störfum. Flestir eru þeirrar skoðunar að búast megi við hrinu uppsagna um áramótin ef ekki hafi samist fyrir þann tíma.

Ég velti því fyrir mér hvort sé einhver afneitun í gangi hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, samanber það hvernig hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og ekki síður hæstv. forsætisráðherra hafa talað í þessum efnum og reynt að henda boltanum í allar aðrar áttir en til sín sjálfs hvað það varðar að aðrir eigi að bera ábyrgð á því að ekki semst við lækna.

Hér eiga í hlut læknar, fastráðnir læknar á spítölum, sjúkrastofnunum og heilsugæslu. Þetta eru burðarásar vinnunnar í hinu opinbera heilbrigðiskerfi. Þetta eru hópar sem hafa setið eftir. Ég sé ekki fordæmisvandann sem er því samfara að horfast í augu við að bæta þarf bæta kjör þessa hóps núna, röðin er komin að hinum fastráðnu læknum í þjónustu ríkisins. Það er búið að semja um umtalsverðar hækkanir til sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Það má benda á jafnlaunaátakið sem hefur bætt kjör hjúkrunarfræðinga og ýmissa stétta á sjúkrastofnunum, en læknarnir sem bera uppi vinnuna og jafnvel helga sig störfum í hinu opinbera heilbrigðiskerfi hafa setið eftir. Þeirra grunnlaun þarf að hækka. Ég sé ekki samanburðarvandann (Forseti hringir.) fyrir aðra hópa í samfélaginu.

Að lokum er það auðvitað þannig að íslenska ríkið (Forseti hringir.) verður sem launagreiðandi að vera samkeppnisfært og geta (Forseti hringir.) boðið þannig kjör að þessi (Forseti hringir.) verðmæti starfshópur fáist til að starfa á Íslandi, (Forseti hringir.) svo einfalt er það mál.