144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í ræðu minni í síðustu viku hefur álit EFTA vegna lögmæti verðtryggðra neytendalána komið fram. Málið snýst um lögmæti á útreikningi á greiðsluáætlunum ef miðað er við 0% verðbólgu ef þekkt verðbólgustig er ekki 0%. EFTA-dómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki væri sanngjarnt að miða útreikning á greiðsluáætlunum við 0% ef verðbólgustig væri ekki 0%, en skaut samt sem áður málinu til íslenskra dómstóla og taldi það þeirra hlutverk að skera úr um það.

Í dag, 8. desember, átti eitt af þeim málum fyrir héraðsdómi að vera tekið fyrir er varðar lögmæti verðtryggingarinnar af lánum. Því máli hefur verið frestað fram í byrjun janúar á næsta ári og það er afar slæmt. Það er mjög slæmt að vera í þessari óvissu og að dómskerfið sé að ýta málunum lengra frá þannig að lengra verði í það að niðurstöður úr þessum mikilvægu málum fáist.

Nú er það svo eins og einnig kom fram í ræðu minni í störfum þingsins í síðustu viku að við erum með í gildi lög er varða flýtimeðferð vegna lána er miðast við gengistryggingu og einnig með vísitölu en sú flýtimeðferð fellur úr gildi núna um áramótin ef ekkert verður að gert. Þess vegna er mjög mikilvægt að nýr hæstv. innanríkisráðherra láti það verða eitt af sínum fyrstu verkum að framlengja þetta lagaákvæði. Óvissan er mikil. Það er mikilvægt að allir í samfélaginu fái að vita hvort þetta standist lög eða ekki. Óvissan er vond og mikilvægt að fá svör við því okkur öllum til heilla.