144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil einnig gera verkfall lækna að umtalsefni því að það er alveg gríðarlega stórt og alvarlegt mál sem ég tel að við verðum að ræða hér. Við verðum héðan af Alþingi að þrýsta á ríkisstjórnina að semja við lækna og ljúka þessu máli. Í dag hófst þriðja verkfallslotan. Núna leggja læknar á kvenna-, barna-, aðgerða- og rannsóknarsviðum niður störf í tvo sólarhringa, ásamt læknum á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem og heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Í fréttum í dag má lesa að mat Þorbjörns Jónssonar, formanns Læknafélags Íslands, sé að mikið beri á milli samningsaðila. Það sem mér finnst gríðarlega alvarlegt er að þrátt fyrir þétt fundarhöld séu ekki nein merki um að skriður sé á viðræðunum. Það virðist sem sagt ekkert þokast í þeim málum. Það má í raun segja að þetta sé alvarlegt vandamál nú í dag fyrir þá sem ekki geta fengið læknisþjónustu vegna þess að læknar eru í verkfalli en halinn sem verður til og sá langi tími sem mun taka að minnka hann er risavaxið vandamál þar að auki.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin verður að leysa þetta mál og semja við lækna. Hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans verða að setja þrýsting á sitt fólk og við á Alþingi, öll saman, (Forseti hringir.) verðum að þrýsta á það (Forseti hringir.) að verkfallið við lækna verði leyst og það nú (Forseti hringir.) þegar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)