144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að heilbrigðiskerfið á Íslandi er mjög gott. Það er það enn þá, við höfum góða lækna og þeir hafa gott orðspor úti í heimi. Það er einmitt þess vegna sem við erum að missa þá í hrönnum í dag. Þetta er fyrsta læknaverkfall í sögu landsins og það er ekki að ástæðulausu að það á sér stað núna. Það er vegna þess að innviðir kerfisins eru að hrynja. Tækin, aðbúnaðurinn, vaktaálagið, launin, þetta er allt það sem heldur í lækna og það er allt orðið afgerandi slæmt á Íslandi. Já, við erum enn þá, samkvæmt þeim stöðlum sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefnir, „all green“ eins og sagt er í þessu mati. Allir þættirnir eru grænir í staðinn fyrir gulir eða rauðir. En það gæti breyst ef við missum sérfræðingana okkar sem við fáum ekki aftur til baka svo auðveldlega vegna þess að unga fólkið er ekki að koma heim og þeir fáu sem koma heim staldra stutt við. Það heyri ég bæði hjá starfandi landlækni og hjá Ólafi Ólafssyni, fyrrverandi landlækni til 25 ára. Þetta er staðan í dag. Já, heilbrigðiskerfið er enn þá gott samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum en læknar eru í verkfalli í fyrsta skipti í sögu landsins og við stöndum frammi fyrir því að missa sérfræðinga okkar og biðlistar eru að lengjast. Þetta er staðan.

En eru til peningar til að forgangsraða í heilbrigðiskerfið? Við gætum gert eitt, við gætum gert skattkerfið skilvirkara, sem er einmitt leiðarljós ríkisstjórnarinnar, með því til dæmis að taka laxveiði inn í það. Við lítum ekki á það þannig að við séum að leigja út land eða fasteign þegar við horfum á virðisaukaskatt á veiðiár heldur að við séum að leigja út aðgang að veiðiá í mjög takmarkaðan tíma eins og maður leigir út aðgang að herbergi, t.d. hótelherbergi. (Forseti hringir.) Þar gætum við fengið inn tæpa 2 milljarða. Og hvað segja heilbrigðisstofnanir (Forseti hringir.) að vanti upp á núna? Ég er kominn með tölur frá nær öllum, sjö af níu, og það eru 2,7 milljarðar. (Forseti hringir.) Það vantar örlítið meira upp á.