144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Vegna þeirra umræðna sem farið hafa fram hér í þingsalnum um námsráðgjöf fyrir fanga sem sitja í íslenskum fangelsum er rétt að taka fram að þingið og fjárlaganefnd þingsins hefur í gegnum tíðina tryggt fjármuni til að þessari þjónustu sé sinnt með sérstökum ákvörðunum í tengslum við fjárlög. Fjárveitingin er til staðar. Hins vegar hefur það sýnt sig að málin eru ekki í nægilega skýrum og góðum farvegi. Þess vegna mun ég sem formaður nefndarinnar og vonandi í sátt við alla nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd fá upplýsingar á nefndarfundi um það með hvaða hætti ráðuneytið telur best að haga málum til að þessi þjónusta, sem þingið hefur þegar lýst yfir að það vilji að verði veitt, verði tryggð. Það er ljóst að við þurfum að átta okkur á þeirri stöðu sem upp er komin og reyna í því ljósi að koma hlutunum í skýrara horf, sem ég taldi reyndar mjög skýrt, svo að þessi þjónusta verði veitt. Þannig liggur einfaldlega í málinu. Ég vonast til þess að af þeim fundi geti orðið á morgun.

Aðeins varðandi virðisaukaskattinn og þá ágætu hugmynd hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar sem kom fram áðan að taka virðisaukaskatt af leigu á laxveiðiréttindum. Hann líkti því við leigu á herbergjum. Leiga á húsnæði er einmitt ekki virðisaukaskattsskyld. Það er einfaldlega þannig. Samkynja leigunni eru veiðiréttindi. Þess vegna falla þau ekki undir virðisaukaskattskerfið.

Sú hugmynd að breikka skattstofninn er hins vegar góð. Við stefnum að því í þeirri lagasetningu sem við vinnum nú að í tengslum við fjárlögin. Ég hvet alla þingmenn til að koma fram með enn fleiri góðar hugmyndir um hvernig við getum enn frekar styrkt og breikkað skattstofnana. (Forseti hringir.) En ástæðan fyrir því að laxveiði er ekki undir er sú sama og að leiga á húsnæði er ekki inni.