144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:07]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til fjárlaga. Þetta er sennilega á þingárinu mikilvægasta umræða þingsins þar sem fjárlögin eru bæði stór og flókin, stór og þykk bók sem er stútfull af tölum. Fjárlögin fjalla auðvitað um og skilgreina hvernig við notum þá peninga sem ríkið, framkvæmdarvaldið, hefur til handa í verkefni og er sem slíkt helsta verkfæri stjórnvalda. Þess vegna er ekki skrýtið að við ræðum það í þaula og ekki skrýtið að menn hafi ólíkar skoðanir á því. Við erum komin dálítið áleiðis í þessari umræðu og hún hefur verið mjög góð, mjög gagnleg og skemmtileg. Ég get tekið undir mjög margt sem hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna síðustu dagana og vil kannski ekki endilega eyða mínum tíma í að endurtaka eða rifja upp það sem áður hefur verið sagt í ágætum ræðum félaga minna í Bjartri framtíð og annarra hv. þingmanna. Ég vil byrja á því, svona rétt til þess að það sé skjalfest einhvers staðar, að taka undir sameiginlegar breytingartillögur minnihlutaflokkanna sem ég held að séu mjög vel ígrundaðar og séu mjög mikilvægir og góðir punktar inn í umræðuna. Einnig vil ég taka undir helstu punkta í nefndaráliti frá 3. minni hluta fjárlaganefndar en þar eru mikilvæg atriði, m.a. um aga í ríkisfjármálum, stefnu og framtíðarsýn.

Það sem mig langaði til að ræða er kannski fyrst og fremst það sem er ekki í fjárlagafrumvarpinu, það sem vantar í það. Fjárlagafrumvarpið er stútfullt af peningum og stútfullt af verkefnum og má segja að það sé pólitísk samstaða um mjög mikið af þeim peningum. Megnið af útgjöldum ríkisins rennur í málaflokka sem við höfum mjög ríka sátt um og eins og kom fram í þeirri skoðanakönnun sem þingflokkur Pírata lét gera um áherslur almennings í ríkisútgjöldum ríma þær að mörgu leyti við stærstu punktana í ríkisútgjöldum. Ég held að það sé ástæða til að þakka og hrósa hv. þingflokki Pírata fyrir þetta frábæra framtak. Það má í raun spyrja sig af hverju stjórnvöld geri ekki svona kannanir reglulega. Við komum hingað sem fulltrúar þjóðarinnar, hafandi einhverja tilfinningu fyrir því hvað þjóðin vill, það sem heyrum í starfi okkar úti á akrinum sem mjög gjarnan er innan okkar flokka, meðal okkar stuðningsmanna. Enginn þingmaður er svo merkilegur eða með svo stór og góð eyru að hann heyri í nema þeim sem honum eru næstir. Það er ákveðin skynvilla sem getur orðið af þvílíkri hlustun.

Stóra gatið sem við höfum auðvitað rætt hérna í umræðunni áður er ekki í fjárlagafrumvarpinu sjálfu heldur í forsendum fjárlaga, þ.e. í tekjuhliðinni. Þar verður að segjast eins og er að hæstv. ríkisstjórn hefur hegðað sér dálítið undarlega. Í stórum og veigamiklum þáttum hefur ríkisstjórnin unnið í því að minnka tekjur ríkissjóðs. Ég tiltek sérstaklega þá punkta sem hafa verið mjög mikið ræddir og er mikið ósætti um hér á þinginu, eins og frestun á því að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, þá ákvörðun að láta auðlegðarskatt falla niður og þá ákvörðun að breyta fyrirkomulagi veiðigjalda þannig að minna komi inn. Síðan er auðvitað sú risastóra ákvörðun um að veita 80 milljarða, 80 þús. milljónir, út úr ríkissjóði til þess að greiða niður einkahúsnæðisskuldir sumra eftir kerfi sem er að sýna sig að hyglir, því miður, að miklu leyti þeim sem betra hafa það, þeim sem eiga eignir, þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu þar sem húsnæðisverðið er hátt og skilur aðra eftir, sérstaklega þá sem eru eignalausir, eru á leigumarkaði, í búsetuúrræðum o.s.frv. Þessi stóru göt skilgreina stöðuna sem fjárlagafrumvarpið er samið inn í vegna þess að fjárlagafrumvarp er alltaf samið til þess að fylla inn í þann ramma eða þá peninga sem eru til í bauknum, eins og mætti orða það. Þar af leiðandi er stór hluti af því sem við hv. þingmenn minnihlutaflokkanna höfum rætt í umræðunni um það sem okkur finnst vanta í fjárlagafrumvarpið. Okkur finnst vanta í heilbrigðiskerfið, í menntakerfið, í samgöngukerfið og víðar. Ástæðan fyrir því að það vantar fé er kannski ekki sú að ríkisstjórnin sé endilega á móti þessum málaflokkum heldur að hún hefur ákveðið hvað er í bauknum og út frá því hvað hún getur mögulega sett í málaflokkana.

Þá kemur að hinu stóra gatinu í fjárlagafrumvarpinu eins og ég upplifi það og það er skortur á framtíðarsýn. Ég held að framtíðarsýn sé mikilvæg fyrir okkur á Alþingi Íslendinga sem erum kosin til að reyna að leggja stefnuna í íslensku þjóðlífi, halda utan um það hvert við erum að fara og nota tækið sem ríkissjóður og framkvæmdarvaldið er til að þróa samfélagið til góðs. Við vitum að við lifum á sérstökum tímum, það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem jarðarbúar upplifa það, en við lifum mikið breytingaskeið. Alþjóðlega efnahagshrunið sem við á okkar séríslenska hátt ákváðum að keyra í og gera að heimsmeti með íslenska efnahagshruninu 2008 er í raun bara lítið sýnishorn af því hvernig fjármálakerfi heimsins er í vanda. Þetta stóra alþjóðavædda kapítalíska heimskerfi hefur að mörgu leyti þjónað okkur ágætlega en það er farið að hiksta. Gegndarlaus áhersla á vöxt, hvort sem hann er sjálfbær eða ekki, er farin að bíta, margar mikilvægar auðlindar jarðar fara þverrandi, við erum hreinlega búin að eyða ansi miklu af þeim auðlindum sem jörðin á. Það sem verra er, við erum búin að koma okkur upp kerfi þar sem við eyðum alltaf meiru og meiru, hraðar og hraðar. Þó svo að sagt sé að við séum kannski búin að brenna helmingnum af þeirri olíu sem jörðin hafði áður en okkur datt í hug að brenna henni, er ekki þar með sagt að við eigum olíu til jafn langs tíma og við höfum haft hana vegna þess að við brennum henni svo miklu hraðar en við gerðum, sérstaklega framan af.

Við lifum líka mjög merkilega tíma í sögu mannsins að því leytinu til að það er að hægja á línulegri fólksfjölgun á jörðinni. Við erum komin á þann stað að fólksfjölgun á jörðinni í dag er fyrst og fremst drifin áfram af því að við lifum lengur. Hún er ekki lengur drifin af því að það fæðast svo miklu fleiri en deyja, heldur fyrst og fremst því að þeir sem eru lifandi munu lifa lengur en þeir hefðu gert í fortíðinni. Það þýðir að sá innbyggði hvati til þess að allt vaxi og stækki o.s.frv. vegna þess að fólkinu fjölgar alltaf, það er alltaf nóg af fólki til þess að vinna störfin, vera neytendur og keyra hagkerfin áfram — þeirri þróun fer að ljúka á næstu 50–100 árum. Sú staða er nú strax komin upp á Vesturlöndum, í Evrópu, eins og við vitum og í þróaðri hagkerfum, ef við getum kallað þau það. Í þeim löndum er farið að detta í fólksfækkun og nú er það orðið svo og verður enn meira um það næstu áratugina að það verður bókstaflega samkeppni um að fá fólk frá öðrum löndum, þ.e. samkeppni um innflytjendur, sérstaklega auðvitað þá sem hafa góða menntun og starfsgetu til að taka þátt í þessum samfélögum.

Ísland er, þrátt fyrir ýmislegt sem sagt er í þessum ræðustól, óvefengjanlega á þessari jörð og hluti af samfélagi jarðarinnar. Við finnum fyrir því í örlítið auknum vilja útlendinga til þess að koma hingað til Íslands og setjast hér að að Ísland er hluti af þessari hreyfingu um heim allan. Þegar einstaklingur ákveður að fara frá sínu heimili, hvort sem það er að flytja frá Hafnarfirði til Reykjavíkur eins og sá sem hér stendur gerði, eða úr landi sínu til annars lands eða annars heimshluta, gerir hann það ekkert upp á grín, hann gerir það að mjög ígrunduðu máli. Það að leggja á sig að flytja úr sínu samfélagi, af málsvæði sínu, jafnvel frá þeim stað þar sem maður á sínar rætur og fjölskyldu og þekkir kerfið o.s.frv., er stór ákvörðun. Hún er ekki tekin nema að einstaklingurinn hafi ríka trú á því að sá staður sem hann er að flytja á sé betri en hinn, gefi honum betri tækifæri, þar sé meiri möguleiki til þess að hann dafni, fái að þróa sig og eigi gott líf.

Við höfum tilhneigingu til að einblína á annan helming jöfnunnar í mörgu. Þegar kemur að peningum einblínum við annaðhvort á plúsinn, meiri pening, eða á mínusinn, skuldir og minni pening. En við eigum að því er virðist oft erfitt með að horfa á báðar hliðar jöfnunnar í einu. Þegar kemur að fólksflutningum milli landa og málefnum innflytjenda til Íslands eða útflytjendum frá Íslandi, þ.e. Íslendingum sem hafa ákveðið að flytja frá Íslandi, horfum við ekki á þessa jöfnu alla. Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga að sá góði fjöldi útlendinga sem hefur flutt til Íslands á síðustu áratugum og auðgað menningu okkar en ekki síst hagkerfið með því að taka þátt í atvinnulífinu er ekki kominn hingað óvart heldur vegna þess að þeir hafa trú á því að íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf búi þeim betra líf. Við höfum hins vegar horft á það, sérstaklega eftir hrunið 2008, að ansi drjúgur fjöldi Íslendinga hefur tekið akkúrat öfuga ákvörðun, þ.e. hefur tekið þá ákvörðun að Ísland sé ekki framtíðarlandið, að íslenskt samfélag bjóði honum ekki upp á það sem hann vill fyrir sig og sína fjölskyldur og hefur flutt úr landi. Hættan við það ástand er sú, eins og við sáum í kreppunni undir lok sjöunda áratugarins, þegar í fyrsta skipti allt frá tíma Vesturfaranna í raun og veru þegar stór hluti Íslendinga flutti frá Íslandi, m.a. alla leið til Ástralíu og fleiri landa, að sá hópur sem flytur úr landi og kemur sér þokkalega fyrir í nýju landi er ekki líklegur til að koma til baka. Hann þarf að sjá ansi bjarta tíma fram undan og jákvæða hluti í gamla heimalandinu til að vilja flytja til baka. Framtíðarsýn um það hvernig íslenskt samfélag verður betra, ekki bara á árinu 2015 sem fjárlagafrumvarpið fjallar um, ekki bara á næstu árum sem hæstv. ríkisstjórn getur reiknað með að sitja, fram að næstu kosningum, heldur framtíðarsýn um næstu áratugi, um lífið á Íslandi næstu áratugina finnst mér grátlega skorta í fjárlagafrumvarpinu.

Mig langar til þess að nefna nokkra punkta vegna þess að ég held að við séum öll sammála í þessum sal um að það sé gott að búa á Íslandi. Við höfum byggt upp samfélag sem býr yfir þokkalegu jafnræði, hér ríkir friðsamlegt samfélag, alla vega miðað við flest önnur, við njótum íslenskrar náttúru á meðan hennar nýtur við, við rífumst auðvitað um það að hve miklu leyti við getum gengið að náttúrunni og náttúruauðlindum en á endanum erum við sammála að gera alla vega tilraun til þess að umgangast hana af sjálfbærni, þótt við rífumst síðan um það hvað nákvæmlega er sjálfbært og hvað ekki.

Við höfum byggt upp sterkar stofnanir á Íslandi. Menntakerfið á Íslandi er mjög gott og þó að menntunarstig okkar sé á eftir öðrum löndum í OECD, þ.e. það eru færri Íslendingar sem ljúka háskólanámi en annars staðar, er menntakerfið byggt að mestu leyti á mjög sterkum stofnunum sem eiga mikið inni. Þegar kemur að menntakerfinu í fjárlagafrumvarpinu er í besta falli hægt að orða það sem svo að verið sé að reyna að halda í horfinu. Það eru einhverjir auknir fjármunir settir til framhaldsskóla og háskóla en þeir eru eiginlega fyrst og fremst til þess að leiðrétta þann neyðarniðurskurð sem varð á árunum fyrst eftir hrun þegar skólunum var gert að taka inn fleiri nemendur en þeir fengu peninga með. Það voru auðvitað viðbrögð við stóra hruninu og til þess að koma í veg fyrir alvarleika fjöldaatvinnuleysis og það var almennur skilningur í samfélaginu að þetta væri jákvæð aðgerð. Það var líka almennur skilningur í háskóla- og framhaldsskólakerfinu að þetta væri jákvætt. Stjórnendur og starfsfólk í þeim stofnunum tók höndum saman með samfélaginu að láta þetta ganga, að taka inn nemendur og taka Íslendinginn á þetta, láta þetta bara reddast. Sú litla innspýting sem við sjáum í menntakerfið í fjárlagafrumvarpinu er öll á þeim nótum að leiðrétta aðeins þær skekkjur en það eru afskaplega lítil merki um framtíðarsýn um það hvernig við getum byggt upp menntakerfið. Sú ákvörðun að breyta í grunnatriðum framhaldsskólakerfinu með því að loka því fyrir þá sem eru komnir yfir 25 ára aldursmarkið er vægast sagt mjög sérstök ákvörðun, en hún er sérstaklega sérstök í því ljósi að þessi stefnubreyting kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, í verkfærinu, en stefnubreytingin sjálf hefur ekki verið rædd eða tekin ákvörðun um hana svo ég viti í þessum sal.

Í fjárlagafrumvarpinu eru settir einhverjir viðbótarpeningar í heilbrigðiskerfið, ekki síst kannski í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Það er vel vegna þess að við vitum eins og hefur komið svo vel fram í umræðunni síðustu mánuði og síðustu árin í raun að íslenska heilbrigðiskerfið er ekki bara farið að titra heldur er það á köflum komið í veruleg vandræði. Heilbrigðiskerfið er annað dæmi um það þar sem við höfum byggt upp mjög gott kerfi og stofnanir. Við sjáum reglulega merki um það að heilbrigðiskerfið á Íslandi er mjög gott. Það er stútfullt af starfsfólki sem leggur mjög mikið á sig, fórnar miklu til þess að vinna gott starf og á þvílíkar þakkir skilið fyrir það. En heilbrigðiskerfið hefur verið að láta undan síga. Við höfum séð tölur um það að fjárveitingar til Landspítala – háskólasjúkrahúss hafa verið að síga og síga og ekki bara frá hruni heldur í enn lengri tíma. Á meðan fjárveitingar hafa rétt dugað til þess að halda starfseminni gangandi hefur húsnæði og tækjakostur látið á sjá og viðhaldi hefur ekki verið sinnt. Nú er svo komið að á þessum helsta spítala landsins erum við að loka deildum og stofum vegna þess að þar eru sýkingar, sem eru vissulega stór áhættuþáttur í rekstri stórra sjúkrahúsa í dag en líka vegna þess að þar er hreinlega sveppasýkingar og húsnæði orðið ónothæft vegna lélegs viðhalds. Þó að í fjárlagafrumvarpinu og í breytingartillögum sé aðeins bætt í höfum við í Bjartri framtíð miklar áhyggjur af því að ekki sé nóg að gert. En við höfum ekki síður áhyggjur af því að í fjárlagafrumvarpinu sé enn og aftur verið að taka reddingu til þess að láta hlutina sullast áfram á svipaðan hátt, ekki sé verið að búa til möguleika á því að byggja upp til framtíðar, að treysta innviði sem munu styrkja stofnanirnar til framtíðar. Það er vissulega vel að settir séu nokkrir peningar í hönnun á nýjum Landspítala en þeir litlu peningar sem í það fara duga skammt og þeir gera að minnsta kosti ekki að verkum að við sjáum fram á hvenær nýr spítali yrði mögulega tekinn í notkun.

Heilbrigðiskerfi okkar er eins og ég sagði áðan mjög gott en það er ekki síst gott í því að taka á vanda þeirra sem eru sjúkir. Spítalinn okkar er mjög til þess hæfur að meðhöndla þá sem eru veikir. Það er auðvitað mjög mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustunni en það sem er kannski ekki síður mikilvægur þáttur í heilbrigðiskerfi þjóðar er að reyna að lágmarka veikindi eða koma í veg fyrir óþarfaveikindi og byggja upp og styðja við góða heilsu landsmanna eins lengi og hægt er. Kerfin sem við höfum til þess á borð við heilsugæsluna, heimahjúkrun og heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu í heimabyggð, enn og aftur fá þau rétt að lafa en við sjáum ekki framtíðarsýn þar, þ.e. í fyrirbyggjandi aðgerðum, lýðheilsu, stofnunum sem stuðla að lýðheilsu og fyrirbyggjandi aðgerðum. Þar held ég að sé einmitt helsta sóknarfæri okkar og heilbrigðiskerfa í framtíðinni. Ég sakna merkja um slíka framtíðarsýn í fjárlagafrumvarpinu.

Ég kom inn á það áðan að í heimi þar sem auðvelt er að ferðast á milli og flytja á milli landa og landsvæða mun fólk, sérstaklega ungt fólk sem hefur kannski lengra æviskeið, lengri starfstíma fram undan, taka ákvörðun um hvort það flytji á milli landa eða ekki, hvort það búi áfram á Íslandi í þessu samhengi. Auðvitað hafa punktar eins og atvinnuástand, möguleiki til þess að koma sér upp húsnæði, möguleiki til þess að mennta börnin sín mikið að segja. Framtíðarsýn einstaklingsins um það hvort menntun barnanna verði góð hefur mjög mikið um það að segja hvaða búsetu hann velur sér. Hvaða starfsmöguleika á viðkomandi? Hverjar eru líkurnar á því að hann fái sæmilega heilbrigðisþjónustu þegar og ef hann þarf á henni að halda? Verður líft á viðkomandi stað, þ.e. er hann skemmtilegur, er hann fallegur, er hann góður?

Ég held að ástæðan fyrir því að mjög mörg okkar hafa haldið í að búa hér á Íslandi sé auðvitað sú að við eigum heima á Íslandi, íslensk náttúra er okkar móðir og hún virkar sterkt á okkur. Íslensk tunga er mjög mikilvæg, íslensk menning er mjög mikilvæg, ekki bara til þess að fylla upp í eitthvert tómarúm þegar við höfum ekkert annað að gera heldur líka til þess að segja okkur hver við erum, til að spegla hver við erum. Menning er líka dálítið sérstök atvinnugrein, ef við getum sagt það, miðað við þær hefðbundnu atvinnugreinar okkar Íslendinga sem byggja á auðlindum; fiski sem syndir í sjónum, á þeim kröftum jarðar sem hægt er að nýta til orkuöflunar o.s.frv. Menningin er framleidd í hausum landsmanna og það má segja að það sé ótakmörkuð auðlind og uppspretta, alla vega á meðan hausar landsmanna nenna að hanga hérna á landinu. Í fjárlagafrumvarpinu sést lítil framtíðarsýn þegar kemur að menningarmálum og atvinnugreininni menningarmálum. Við horfum fram á niðurskurð til Ríkisútvarpsins sem er ákveðið flaggskip íslenskrar menningar og ekki síst íslenskrar tungu. Við sjáum fram á niðurskurð til Ríkisútvarpsins og í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er gefið loforð um að niðurskurður til Ríkisútvarpsins verði meiri. Niðurskurðurinn er slíkur að stjórnendur Ríkisútvarpsins eru fullvissir um að eina leiðin til að standa hann sé að minnka til muna þjónustuna og það, eins og við vitum, mun bitna sérstaklega á menningarhlutverki Ríkisútvarpsins. Það er mikið áhyggjuefni.

Margir hv. þingmenn hafa rætt um virðisaukaskattsbreytingarnar hér á undan mér og kannski sérstaklega horft á breytinguna sem verður við hækkun matarskattsins. Ég vil ekki endurtaka það sem aðrir hafa sagt svo ágætlega um það, ég tek undir áhyggjur þeirra. En samfara breytingu og hækkun á matarskatti er verið að hækka virðisaukaskatt á menningu, margumtalaðan bókaskatt, þ.e. skatt á sölu bóka, og í þeim sama skattflokki skatt á geisladiska, tónlistarafurðir og menningarafurðir. Það sem hefur einkennt íslenskt menningarlíf alla tíð og ekki síst síðustu áratugina er að við erum að gera svo miklu meira og miklu betur en við ættum tölfræðilega að geta gert miðað við mannfjölda. Sá sem hér stendur starfaði áður en hann lét plata sig í stjórnmál mest í menningarheimunum og þekkir þetta ágætlega. Við Íslendingar þekkjum það ágætlega að Ísland er fyrst og fremst þekkt í hinum stóra heimi út frá menningu okkar. Það er ekki langt síðan við gátum farið víðast hvar um veröldina, kannski fyrir utan Norðurlönd, Þýskaland, Norður-Evrópu, eitthvað svoleiðis, og það eina sem menn vissu um Ísland var að Bobby Fischer hefði einu sinni komið hérna, einhverjar fallegar konur héðan hefðu verið í keppnum og kannski að við værum einhvers staðar nálægt Grænlandi. Í dag er þessu aldeilis öðruvísi farið, fólk um víða veröld veit ágætlega af Íslandi, af íslenskri náttúru en ekki síst íslenskri menningu. Það kom fram í könnun nýlega að sterkasta vörumerki Íslands væri hvorki Bláa lónið, lýsi né þorskur heldur væri það Björk. Þegar maður hittir fólk frá Bandaríkjunum, stærsta menningarmarkaði heims, og það segir manni að það þekki einhvern sem hafi farið á risatónleika með íslenskri hljómsveit og það sé nú aldeilis frábært að Ísland skuli eiga svona fræga hljómsveit þarf maður að spyrja: Já, bíddu, hver þeirra var það? vegna þess að það eru margar sem koma til greina.

Kringum árið 2005 voru teknar saman tölur um þýðingar sem voru gefnar út á þýska málsvæðinu sem er næstmikilvægasta málsvæði í bókaútgáfu í veröldinni. Þýðingar á því málsvæði eru á milli 40–50% af heildarútgáfu bóka. Af þýðingum það árið var 1% allra þýðinga úr íslensku, þessu pínulitla tungumáli sem, eins og við orðum það, við örfáar hræður hérna norður í ballarhafi tölum. Þetta var 2005. Árið 2011 var Ísland í sérstöku gestahlutverki á bókamessunni í Frankfurt sem er vel að merkja alfa og omega í bókaheiminum. Þá hafði fjöldi þýðinga úr íslensku fjór- eða fimmfaldast og það hefur viðhaldist. Í þýskum bókabúðum rekst maður á bækur frá stórum og virtum forlögum eftir íslenska rithöfunda sem maður hefur varla heyrt minnst á hér á Íslandi vegna þess að íslenski markaðurinn hefur ekki haft pláss fyrir þá, en sá þýski hefur það. Þessi útflutningur er mjög ósýnilegur í hagtölum, hann er mjög ósýnilegur í fjárlagafrumvarpinu. En það er mjög mikilvægur þáttur ef maður leyfir sér að horfa eitthvað fram yfir árið 2015, fram yfir þetta kjörtímabil, að hér ríki áfram sterkt og öflugt menningarlíf sem hefur möguleika til mikils útflutnings, til mikillar sköpunar og uppbyggingar á Íslandi og fyrir Íslendinga sem styrkir menningu, umfjöllun um íslenska náttúru og íslenska tungu. Það hlýtur að vera mjög stór þáttur í þeim ramma, í því framtíðarsamfélagi sem við ætlum að hafa næstu áratugina og því samfélagi sem við þurfum að hafa á Íslandi eigi einhver, með leyfi forseta, að nenna að búa hérna til langframa.

Því miður held ég að bókaskatturinn muni koma niður á íslenskri bókaútgáfu, hann mun ekki síst koma niður á íslenskri tónlistarútgáfu sem á mjög undir högg að sækja um þessar mundir. Meðan við höfum ekki sterka útgefendur á Íslandi til að gefa út íslenska menningu og, eigum við að segja, niðurgreiða startkostnaðinn við að búa til þá sömu menningu held ég að við séum í hættu stödd.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki heldur bætt í til íslenskrar kvikmyndagerðar sem er kannski sá vaxtarsproti sem við höfum helst séð verða til síðustu 10–20 árin. Eins og heyrist á þeim sem starfa í íslenska kvikmyndaheiminum eru menn mjög uggandi um framtíðina þar. Það að Íslendingar framleiði kvikmyndir er ekki bara mikilvægt fyrir sjálfsmynd okkar heldur líka fyrir hvaða mynd aðrir hafa af okkur vegna þess að þeir eru líklegri til þess að sjá bíómynd frá Íslandi en að þeir rekist óvart hingað til Íslands eða hitti einn af þessum örfáu Íslendingum einhvers staðar í heiminum.

Í frumvarpinu er lítið sem ekkert snúið aftur til þeirrar fjárfestingaráætlunar sem var ákveðin á árinu 2013 og var verk þáverandi ríkisstjórnar og Björt framtíð hafði aðkomu að þeirri vinnu. Í þeirri áætlun var einmitt verið að leggja grunn að því að styrkja skapandi greinar, styrkja græna hagkerfið, styrkja nærsamfélögin, t.d. í gegnum sóknaráætlanir landshluta. Þau framlög voru strax lækkuð niður í 15 milljónir, voru upphaflega í 400 milljónum, orðnar 15 milljónir í fjárlagafrumvarpinu en hafa nú verið hækkaðar af mikilli náð í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar upp í 100 milljónir, þ.e. einn fjórða af því sem upphaflega var gert ráð fyrir. Þar voru einmitt mjög mikilvægar uppbyggingaráætlanir sem höfðu verið unnar í mjög breiðri samstöðu, þverpólitískri samstöðu í héraði og það er mjög sorglegt að sjá þetta ekki koma inn.

Í frumvarpinu eru lækkuð framlög til Þróunarsamvinnustofnunar. Þó að heildarframlög til þróunaraðstoðar rétt lafi sjáum við að framlög til Þróunarsamvinnustofnunar, sem er bein þróunaraðstoð sem Íslendingar skipuleggja sjálfir, eru komin undir það hlutfall sem var miðað við í þróunarsamvinnuáætlun sem var samþykkt hér á þingi. Þar var gert ráð fyrir því að þetta hlutfall væri 40% af heildinni. Ég hef áhyggjur af því sem kom fram í máli utanríkisráðherra í sérstakri umræðu á dögunum um að vissulega stæði til að bæta í þróunaraðstoð Íslendinga, sem er satt að segja eiginlega til skammar eins og hún er miðað við hvað þetta er ríkt samfélag og býr yfir miklum forréttindum, en gera yrði það hægar en Alþingi hefði ákveðið vegna þess að það vantaði svo mikinn pening. Eins og ég kom að í upphafi máls míns vantar líka pening í forsendum þessa fjárlagafrumvarps, fullt af peningum sem hæstv. ríkisstjórn hefur afsalað sér og stóra peninga sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja frekar í að leiðrétta húsnæðislán, m.a. þeirra sem virkilega hafa það gott og eiga miklar eignir.

Ég vil nota þessa síðustu mínútu af ræðutíma mínum til að minnast á nokkra bleika fíla sem ég sé ekki að tekið sé á í fjárlagafrumvarpinu og ég hef áhyggjur af til framtíðar. Eins og ég sagði fyrr í ræðunni er lítið byggt upp í innviðunum, þeir eru eiginlega látnir grotna niður áfram. Það er lítil framtíðarsýn í húsnæðismálum og maður veltir fyrir sér hver framtíðarsýnin sé eða hvað unga kynslóðin eigi að halda um framtíðina. Það er lítið tekið á framtíðarvanda Íbúðalánasjóðs sem kemur til með að bíta okkur fyrr eða seinna, fyrr sennilega. Og það er lítið sem ekkert tekið á framtíðarvanda lífeyrissjóðakerfisins. (Forseti hringir.)

Ég lýk máli mínu og hlakka til þess að þessi umræða verði gagnleg og skemmtileg áfram.