144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú er enn ein verkfallslota lækna hafin. Samningar virðast ekki einu sinni vera í augsýn. Við erum að ræða fjárlögin, við erum að ræða það hvernig við eigum að forgangsraða skattfé almennings. Landsmenn eru alveg skýrorðir, sama hvaða flokk þeir kjósa, á hvaða aldri þeir eru, burt séð frá efnahagsstöðu, kyni, kjördæmi, landsmenn allir eru á einu máli um að það eigi að forgangsraða skattfé þeirra í heilbrigðiskerfið.

Nú talaði ég í síðustu viku við starfandi landlækni og fyrrum landlækni, Ólaf Ólafsson, sem var landlæknir í 25 ár. Þeir eru sammála um að brýnast núna er að ná samningum við lækna. Þetta er í fyrsta skipti sem læknar fara í verkfall á Íslandi.

Hvernig lítur hv. þingmaður á þetta? Hvernig vill hann sjá störfum þingsins háttað í framhaldinu og hvað getum við gert?