144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef verið að afla fleiri gagna. Ég sendi bréf á allar heilbrigðisstofnanir landsins, þær eru sjö talsins í dag, og spítalana tvo. Ég er kominn með svar frá sjö af níu. Fyrirspurnin var: Hversu mikið metið þið að nauðsynlegt sé að setja í heilbrigðisstofnunina til að tryggja nauðsynlega þjónustu, umfram það sem fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur meiri hlutans leggja til? Mig vantar enn svar frá Heilbrigðisstofnun Austurlands og Vestfjarða, ég bíð eftir þeim og þau koma vonandi í dag. En í svörum sem mér hafa borist frá hinum sjö, og eru báðir spítalarnir þar með taldir, kemur fram að upphæðin er 2,7 milljarðar kr., það er sú upphæð sem þá vantar nauðsynlega.

Við sem löggjafinn eigum að afla þessa fjár og tryggja að skattféð, sem við erum að ræða í þessum fjárlögum, skili sér í það forgangsatriði sem almenningur kallar eftir. Við getum ekki farið í frí án þess að hafa tryggt þessar fjárveitingar.