144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:54]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég deili þessum áhyggjum með hv. þingmanni. Mér finnst vera merki um að það sé stefnubreyting hjá hæstv. ríkisstjórn, skárra væri það nú. Hæstv. ríkisstjórn er auðvitað samsett af þeim flokkum sem voru í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili og voru, eins og heyrðist þá, ekki par ánægðir með störf þáverandi stjórnar.

Ég hef áhyggjur af því að við stefnum að auknum ójöfnuði. Ég hef áhyggjur af því að við séum í raun að láta viðgangast áfram fátæktargildrur hjá ákveðnum hópum, sérstaklega hjá öryrkjum, hjá langtímaatvinnulausum o.s.frv. Og ég hef áhyggjur af því að þetta muni slíta samfélag okkar í sundur og minnka samheldni okkar.