144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:04]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Í ræðu minni talaði ég um að mikilvægt væri að forgangsraða fyrir grunnstoðirnar innviðina, heilbrigðiskerfið, menntakerfið o.s.frv. En það er auðvitað mjög mikilvægt í jafn flóknu og breiðu samhengi og ríkisfjármálin eru að við einblínum ekki bara á eitt vegna þess að öll hin blómin þurfa líka að lifa.

Þegar ég talaði um vanda Ríkisútvarpsins talaði ég kannski fyrst og fremst út frá orðum og þeirri umræðu sem hefur orðið frá stjórnendum stofnunarinnar. Vandi stofnunarinnar er auðvitað ekki bara fjárveitingalegs eðlis, heldur er hann ekki síður þess eðlis að á stofnuninni hvíla þungar byrðar í formi lífeyrisskuldbindinga, dýrs húsnæðis o.s.frv. (Forseti hringir.) sem hefur mjög neikvæð áhrif á starfsemina. Það er starfsemin sem ég er að einblína á.