144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að færa hv. fjárlaganefnd bestu þakkir fyrir vinnu sína að málinu fyrir 2. umr. og einnig nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd. Sem gamall fjárlaganefndarmaður og fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar veit ég að að baki þessu liggur gríðarlega mikil vinna hér á haustþingi við að kalla eftir sjónarmiðum fólks alls staðar að úr samfélaginu og fara yfir margháttaðar athugasemdir og ýmislegt það sem leiðrétta þarf á jafn viðamiklu máli og þingmál nr. 1 er, fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015. En það eru því miður einmitt breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar sem valda mér ákveðnum áhyggjum á þessu stigi í vinnslu málsins hér í þinginu.

Nýjar tölur um mun minni hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins hljóta að vekja efasemdir um að fjárlagafrumvarpið sé á réttum rökum reist. Þær kalla á að fjárlaganefndin og efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir það á milli 2. og 3. umr. hvort þjóðhagslegar forsendur fyrir frumvarpinu eins og það stendur núna haldi þegar komið er fram að á fyrstu níu mánuðum ársins var hagvöxtur í landinu miklu minni en spár ráðgerðu, 0,5%. Það hlýtur að skapa áhyggjur af því að landsframleiðslan hafi vaxið minna en ætlað var og þar með munu tekjur ríkissjóðs ekki verða þær sömu og gert var ráð fyrir, bæði við framlagningu frumvarpsins og eins á milli 1. og 2. umr.

Áður en tölur um hagvöxtinn á fyrstu níu mánuðum ársins komu fram fengum við nýja þjóðhagsspá á milli 1. og 2. umr. Sú spá var enn þá bjartsýnni en spáin sem lögð var fram fyrir framlagningu fjárlagafrumvarpsins og gerir það að verkum að meiri hlutinn telur að meiri tekjur séu í spilunum en gert var ráð fyrir við upphaflega framlagningu fjárlagafrumvarpsins, að meiri tekjur komi inn á milli 1. og 2. umr. vegna bættra horfa í þjóðarhagnum og þess vegna sé unnt að ráðstafa verulegum fjármunum í mikilvæga útgjaldaliði. Þess vegna bregður manni óneitanlega við að sjá tölur um vöxt í landsframleiðslu á fyrstu níu mánuðum ársins vera aðeins 0,5%. Menn gerðu væntanlega ráð fyrir liðlega 2% á fyrstu níu mánuðum ársins og við vitum að hvert prósent í hagvexti skiptir milljörðum kr. í tekjur fyrir ríkissjóð Íslands. Ef svo mikill munur er á veruleikanum í vexti á landsframleiðslu á hagvexti í landinu og þeim spám sem menn byggðu á gerir það kröfu til beggja hv. nefnda, fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar, að farið sé rækilega í saumana á því hvort við stöndum hér að fjárlagagerð sem byggir á ofmati á efnahagsástandinu í landinu.

Fyrir ekki mörgum árum höfum við því miður ekki verið bjartsýn heldur beinlínis ofmetið vöxt og viðgang í efnahagslífinu, gengið allt of langt í ríkisfjármálunum, byggt á því ofmati og þurft að takast á við mjög alvarlegar og langvarandi afleiðingar á slíku ofmati. Þegar fram koma tölur um að hagvöxturinn sé miklu minni en spáð hefur verið er enn þá mikilvægara að farið sé með gagnrýnum hætti ofan í forsendur þeirrar þjóðhagsspár sem unnið var eftir á milli 1. og 2. umr. og það allt saman skoðað að nýju á milli 2. og 3. umr. og hvaða áhrif svona miklu minni hagvöxtur hefur bæði á afkomu yfirstandandi árs, því að fjáraukalagafrumvarpið er auðvitað enn til umfjöllunar í þinginu, og á tekjuhorfur ríkissjóðs á nýju ári. Ég vona auðvitað að það sé sem minnst en ég gef mér þó að sé hagvöxtur á annan tug milljarða minni vöxtur í landsframleiðslu á fyrstu níu mánuðum ársins en menn gerðu ráð fyrir muni það óhjákvæmilega hafa einhver áhrif á afkomu yfirstandandi árs og einnig afkomuna á næsta ári. Það kann þó að vera minna fyrir næsta ár því að einhver vöxtur kann að flytjast á milli ára, en það er algerlega nauðsynlegt að farið sé vel og rækilega yfir það.

Hinar nýju tölur um að hagvöxturinn sé orðinn þetta lítill og lélegur svona stuttu eftir ríkisstjórnarskipti vekja okkur verulegar áhyggjur af efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar. Það er full ástæða til að spyrja krefjandi spurninga um hvort afleiðingar af rangri stefnu í ríkisfjármálum, rangri efnahagsstefnu, komi fram nú þegar vegna þess að frá hruni, í tíð ríkisstjórnarinnar sem hér sat á síðasta kjörtímabili og einnig í lok kjörtímabilsins þar áður (VigH: Skjaldborgarstjórnarinnar.) höfum við fylgst með sífelldum og umtalsverðum hagvexti ár frá ári, kannski í kringum 3% meiri en verið hefur í helstu viðskiptalöndum okkar og við þurftum sannarlega á því að halda. Við þurftum sannarlega á vexti að halda, á stærri köku að halda til að snúa hlutunum við í efnahagsmálunum til að bæta afkomu heimilanna í landinu, atvinnulífsins og auðvitað líka hins opinbera, sveitarsjóðanna og ríkissjóðs. Það var sannarlega samstillt átak fólksins í landinu, atvinnulífsins, opinberra aðila og allra sem vettlingi gátu valdið að ná þeim viðsnúningi. En þegar honum var náð seint á síðasta kjörtímabili, þegar ríkissjóður var kominn í plús, þegar vöxtur hafði verið nokkur ár í röð, tók við ný stjórnarstefna. Sú stjórnarstefna byggir á því að nota það svigrúm sem er að skapast, ekki til að efla velferðarkerfið, ekki til að styrkja innviðina og grunnstoðirnar í samfélaginu, ekki til að fjárfesta í nýsköpun og rannsóknum eins og þróuðustu ríki veraldar leitast við að gera, ekki við að bæta kjör lægst launuðu hópanna umfram aðra, heldur fyrst og fremst er svigrúmið nýtt til að lækka skattbyrði á ríkasta fólkinu í landinu. Það er ekki bara ósanngjarnt, það eru ekki bara vondar áherslur í ríkisfjármálum, það er líka vond efnahagspólitík.

Rannsóknir á vegum verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndum hafa nefnilega sýnt að þeir fjármunir sem varið er til að bæta kjör meðaltekjufólks og lágtekjufólks og til að efla velferðarþjónustu, eru fjórum sinnum líklegri til að skapa ný störf og vöxt í landsframleiðslunni en ef sömu fjármunum er varið í skattaeftirgjöf til efnafólks og hátekjufólks. Það er þess vegna algerlega kolröng efnahagspólitík nú þegar loksins er að skapast svigrúm eftir margra erfiði í ríkisrekstrinum að verja því í þágu þess að létta veiðigjöldunum af stórútgerðinni sem aldrei hefur búið við jafn glæsilega afkomu og einmitt þau ár sem var undir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, og létta auðlegðarskatti af fimm þúsund ríkustu heimilunum í landinu. Við þurfum á þeim fjármunum að halda til að byggja upp velferðarþjónustuna, efla velferðarkerfið og bæta kjör þeirra sem lögðu á sig mest erfiði í gegnum hrunið, fólks með meðaltekjur og lægri tekjur. Með því að ráðstafa fjármunum ríkisins með þeim hætti knýjum við áfram hjól atvinnulífsins og sköpum við vöxt í samfélaginu. Það gerum við miklu síður með því að taka þessa fjármuni og ráðstafa þeim til forréttindahópanna eins og gert hefur verið. Þess vegna held ég að tölurnar um lítinn og lélegan hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins kalli á að menn kanni í fyrsta lagi vel og rækilega hversu áreiðanlegar þær upplýsingar eru, á hversu traustum grunni þær byggja, hvort aðeins er um að ræða tilhliðrun á milli tímabila eða hvort raunveruleg ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að hér sé efnahagsstjórnin að fara á verri veg, að hér muni aðgerðir ríkisins beinlínis valda því að vöxtur í landsframleiðslunni verði miklu minni en allir aðilar spáðu fyrir um og það megi að hluta til rekja til þess að ekki sé nægilega mikill vöxtur í samneyslunni. Hún hefur í raun vaxið allt of lítið á undangengnu ári og þeim fjármunum sem varið hefur verið í skattaeftirgjöf til forréttindahópanna hefði átt að verja í miklu verðugri hluti en það.

Við ræddum fyrr á þingfundinum um eitt ágætisdæmi um það, þ.e. Landspítala – háskólasjúkrahús. Það hefði það skipt svo miklu máli fyrir efnahagsstarfsemina í landinu, fyrir atvinnusköpun, fyrir framkvæmdastig og fyrir trú manna á því að pólitísk forusta væri hér í landinu fyrir því að halda uppi metnaðarfullu heilbrigðiskerfi eins og verið hefur. Það hefði skipt miklu máli að menn hefðu stigið fram á Alþingi, ríkisstjórnin, með þá fjármuni sem skapast höfðu vegna þeirra skilyrða sem síðasta ríkisstjórn skapaði í ríkisfjármálunum og í vexti á efnahagsstarfseminni og kynntu áætlun um uppbyggingu nýs spítala, og notuðu eitthvað af þeim tugum milljarða sem falla nú niður á ári vegna þess að ríkisstjórnin hefur gefið eftir skatta við efnuðustu heimilin í landinu, hátekjuhópana og stórútgerðina. Það hefði skipt miklu máli ef menn hefðu notað þótt ekki væri nema einhvern hluta af þeim tugum milljarða sem þannig er búið að gefa eftir á hverju ári til að fjármagna uppbyggingu á nýjum Landspítala og ráðist í það verkefni og þá mikilvægu úrbót í heilbrigðismálum okkar sem því fylgir. Því hefði einnig fylgt hvatning fyrir bæði atvinnusköpun og vöxt og viðgang í efnahagslífinu, að ekki sé talað um þær starfsaðstæður sem við hefðum þá skapað því fólki sem starfar í heilbrigðiskerfinu og við höfum rætt um hér á fundinum.

Það er auðvitað markmið í sjálfu sér að bæta þær vondu starfsaðstæður sem orðnar eru á Landspítalanum eftir að hafa verið í svelti um framkvæmdir í hálfan annan áratug á meðan menn hafa verið að velta því fyrir sér að byggja nýjan spítala og hafa þess vegna á annan áratug ekki ráðist í neinar verulegar framkvæmdir til úrbóta á spítalanum. Hann drabbast bara, niður eins og við þekkjum, og er orðinn þannig að starfsaðstæður þar eru ekki boðlegar.

Rætt var fyrr á fundinum að ósanngjarnt væri að taka kjaramál lækna og kjaramál heilbrigðisstétta til umræðu í þingsölum. Ég held að það sé að vísu ekki rétt hjá hv. varaformanni fjárlaganefndar þó að það kunni að vera rétt að slík mál eigi að ræða af hófsemi. Hinu er ekki að neita, og það vitum við öll, að við munum að minnsta kosti ekki í bráð geta keppt við ríkustu samfélög veraldarinnar í launakjörum lækna. Það verða alltaf til staðir í heiminum sem munu bjóða betri laun en við. En heilbrigðisstéttirnar okkar eru Íslendingar, þeir vilja gjarnan vinna hér flestir hverjir og eiga hér fjölskyldu, en starfsaðstæður skipta okkur ekki síður máli en laun. Það er sárgrætilegt að menn hafi í örlætisgjörningum við útgerðina, við efnuðustu heimilin í landinu og við hátekjuhópana gefið eftir tekjur sem hefðu gert okkur kleift að vera þegar farin af stað með byggingu nýs Landspítala, sem ég held að fólk í öllum stjórnmálaflokkum og fólk um allt land sé löngu farið að kalla eftir.

Virðulegi forseti. Það er fleira í heilbrigðiskerfinu sem gefur manni ástæðu til að staldra við í umræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015, fleira en það aðgerðaleysi sem einkennt hefur stjórnvöld hvað varðar aðstöðu á spítalanum og uppbyggingu á nýjum spítala. Það eru þá ekki síst sjúklingagjöldin. Ég held að við þurfum að ræða þau í grundvallaratriðum við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Við horfum upp á að kostnaðarhlutdeild í heilbrigðisþjónustunni mun aukast um 1,9 milljarða, 1.900 millj. kr. Það eru auðvitað geipilega miklir fjármunir. Áður en að því skrefi kom vorum við komin að þolmörkum á því hvað hægt er að láta sjúklinga greiða mikið sjálfa í kostnaði við heilbrigðiskerfið. Það má rekja til aðgerða sem gripið var til í því sem kallað var litla kreppan 1992–1994, undir yfirskrift um aukna kostnaðarvitund sjúklinga, en einnig að sumu leyti til hrunsins og afleiðinga þess. Nú þegar við erum farin að sjá ríkissjóð rekinn með afgangi og þegar verið hefur vöxtur í mörg ár í efnahagsstarfseminni og spár gefa til kynna að þannig verði það áfram næstu árin, hlýtur maður að spyrja: Er þetta rétti tíminn til þess að auka svona hraustlega álögur á sjúklinga? Svarið við því er ósköp skýrt og einfalt. Það er nei, virðulegi forseti, það er nei.

Um leið og við eigum frábært heilbrigðiskerfi, búum að einhverju hinu besta heilbrigðiskerfi sem menn njóta í okkar heimshluta er það því miður þannig að fjöldinn allur af fólki veigrar sér við að leita eftir heilbrigðisþjónustu af efnalegum ástæðum. Nýjustu kannanir sem við höfum séð um það og samanburður á milli landa hlýtur að vera okkur hvatning til að skera upp herör í þessu efni og vinna að því gagngert að breyta gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu með þeim hætti að hún hreki ekki fólk sem þarf virkilega á heilbrigðisþjónustu að halda frá því að leita sér lækninga. Það er grafalvarlegt að láta slíka stöðu koma upp í okkar góða samfélagi.

Það tókst sem betur fer að koma í veg fyrir að settur væri sérstakur gistináttaskattur á inniliggjandi sjúklinga við afgreiðslu fjárlaganna á síðasta ári. Það var mjög mikilvægt því að þar var enn eitt dæmið um furðulegar áherslur ríkisstjórnarinnar í gjaldtöku og sköttum þar sem menn vildu á sama tíma hverfa frá hugmyndum um að skattleggja erlenda ferðamenn og þá þjónustu sem þeir kaupa hér á landi. Á sama tíma var lagt til að legugjöld yrðu sérstaklega lögð á, eða gistináttaskattur á sjúklinga eins og það var kallað við umræðuna í þingsal. Ég held að mikilvægt sé að menn leiti leiða við afgreiðslu þessara fjárlaga til að falla frá einhverjum af hinum óhæfilegum áformum um gjöld á sjúklinga, m.a. það sem snýr að S-merktu lyfjunum og verið hefur til talsverðrar umræðu.

(Forseti (SilG): Forseti beinir því til hv. þingmanns hvort hann geti gert hlé á ræðu sinni.)

Það er sjálfsagt að verða við því, virðulegur forseti.

(Forseti (SilG): Kærar þakkir.)