144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (frh.):

Virðulegur forseti. Ég held þá áfram þar sem frá var horfið þegar hlé var gert á fundinum fyrir þingflokksfundi og aðra fundi í þinginu. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015. Við höfum rætt nokkuð um tekjuöflunina í frumvarpinu og þær röngu áherslur sem stjórnarmeirihlutinn hefur lagt á tekjuöflunarhliðina með því að gefa eftir skatttekjur á stórútgerðina nú þegar afkoman er þar betri en hún hefur nokkru sinni verið með því að gefa eftir 10 milljarða tekjur af auðlegðarskatti sem snýr að efnuðustu heimilunum í landinu fyrir utan það að lækka síðan sérstaklega tekjuskattinn á hátekjufólkið. Hér virðist stjórnarstefnan vera farin að bitna á vexti efnahagslífsins því að hagvaxtartölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins eru aðeins 0,5% og kemur heim og saman við þau sjónarmið að niðurfelling skatta á hátekju- og eignafólk sé ekki hagvaxtaraukandi heldur þvert á móti. Það séu skattalegar aðgerðir sem séu fyrst og fremst til þess fallnar að safna auði á færri hendur og til að örva neyslu annars staðar en hagfellt er og við sækjumst eftir, svo sem neyslu erlendis og fjárfestingu í öðru en því sem er innan lands. Ef menn ætla að beita skattalækkunum sem tæki til að örva efnahagsstarfsemina þá eru þær langárangursríkastar þegar þær snúa að meðaltekjufólki og lágtekjufólki, en því er nú því miður ekki að heilsa í þessum aðgerðum frekar en svo mörgum öðrum.

Þar er auðvitað nýjasta útspilið í fjárlagafrumvarpinu sem hrópar og kallar á spurningar manna um Framsóknarflokkinn og hvað orðið hafi af honum í íslenskum stjórnmálum þegar nú er ráðist fram með hækkun á matarskattinum. Það er alveg ljóst að slíkt kemur sérstaklega illa við lágtekjufólkið, eins og forsætisráðherra boðaði raunar sjálfur þegar hann var í stjórnarandstöðu. Mótvægisaðgerðirnar svokölluðu eru í fyrsta lagi ekki mótvægisaðgerðir að því leytinu til að það er rétt verið að hífa barnabæturnar upp í það sem þær voru árið 2013 og þær hækka ekkert umfram það, auk þess sem litlar aðgerðir er að sjá fyrir þá sem ekki eiga börn.

Við neytendur vitum af biturri reynslu að hækkanir skila sér því miður í vöruverði og það mun hækkunin á matarskattinum líka gera. Því miður hafa lækkanir ekki skilað sér að sama skapi. Má í því sambandi benda á greinaskrif í blöðunum í dag sem draga fram hvernig gengisþróunin hefur til að mynda ekki skilað sér í matvöruverðinu og er hætt við því að afnám vörugjalda á vörur eins og byggingarvörur og raftæki sem ekki eru undir jafn stífu verðlagseftirliti og matvara, munu enn síður skila sér, fyrir nú utan það að ef við horfum á fólk með lágar tekjur vega rafmagnsnuddpottar og önnur slík tæki býsna lítið í mánaðarlegri neyslu þess. En maturinn sem menn kaupa og þurfa að hafa á hverjum degi vegur auðvitað þyngra því að það eru útgjöld sem allir verða að ráðast í. Hitt eru meira útgjöld sem menn geta tímasett eða leitað ódýrari og einfaldari leiða, þraukað lengur með ýmsa hluti o.s.frv. Það þekkja svo sem allir þeir sem rekið hafa heimili og vita, ólíkt ríkisstjórninni, að hver máltíð kostar ekki 209 kr. eins og hæstv. fjármálaráðherra hélt hér fram við upphaf umræðunnar og Framsóknarflokkurinn með honum. Þess vegna er matarskatturinn enn ein kerfisaðgerðin sem er óhagstæð fyrir þá sem eru með meðaltekjur og einkum þá sem eru með lágar tekjur, alveg eins og að ýmsar aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa sérstaklega lotið að því sem við nefndum áður, að létta sköttum af eignafólki og hátekjufólki. Einnig hefur verið ráðist í ýmiss konar aðgerðir eins og skuldaaðgerðirnar sem eru sérstaklega sniðnar þannig að þær ná ekki til efnaminnstu hópanna í samfélaginu og ná þannig ekki til þeirra tugþúsunda heimila sem eru á leigumarkaði og sitja eftir í þeim aðgerðum.

Það er orðið þeim mun meira áhyggjuefni af því að lágtekju- og meðaltekjufólkið lagði harðar að sér í hruninu og í því að byggja samfélagið aftur upp eftir hrun. Það var ekki eins og bankamennirnir sem tjóninu ollu hafi borgað reikninginn, sá reikningur var náttúrlega borgaður af vinnandi fólki, almenningi í landinu sem lagði á sig ómælt erfiði við að vinna samfélagið út úr hruninu, við að ná vexti hér í efnahagsstarfsemina, við að snúa við rekstrinum á ríkissjóði. Og loksins þegar ríkissjóður var kominn í plús í tíð síðustu ríkisstjórnar og menn geta núna farið að taka ákvarðanir um að ráðstafa þeim fjármunum til að bæta kjörin í landinu er merkilegt að þessir hópar séu algerlega skildir eftir. Það er því lítið annað af kjarabótum að sjá til örorkulífeyrisþega en bara þau ákvæði sem áttu samkvæmt lögum fyrri ríkisstjórnar að falla úr gildi og hafa fallið úr gildi. Það er orðið sérstakt áhyggjuefni þegar við sjáum nýlega könnun á kjörum örorkulífeyrisþega sem ég held að þingmenn ættu að taka sérstaklega vel eftir. Hún er unnin af Benedikt Jóhannessyni hjá Talnakönnun, en hann er líklega sá Íslendingur sem hvað fróðastur er og best að sér um lífeyrismál og ákaflega flinkur í margvíslegum útreikningum. Þar held ég að við sjáum loksins raunverulegar tölur sem hægt er að skilja og tala um.

Því miður er almannatryggingakerfi okkar svo flókið og ógagnsætt. Þar eru alls konar bótaflokkar og þar eru alls konar frítekjumörk og þar eru alls konar skerðingar og skerðingarhlutföll og oft og tíðum getur verið ákaflega erfitt að átta sig á því hvernig kjör fólks í almannatryggingum eru að þróast vegna þess að einn bótaflokkurinn hefur kannski hækkað en annar hefur staðið í stað og svo hafa frítekjumörkin ekki hækkað. Þetta er einhver ógurleg flækja. En Talnakönnun hefur reiknað út heildartekjur þeirra sem voru á örorkulífeyri í janúar 2009 annars vegar og hins vegar í janúar 2013. Það er ekki einstakur bótaflokkur, skerðingarmörk eða neitt annað, þetta eru bara heildartekjur fólksins, árslaun fólks sem er á örorkulífeyri, allar tekjur eru taldar, hverju nafni sem þær nefnast og litið fram hjá öllum flækjunum. Hér er bara spurt: Hverjar voru heildartekjurnar í janúar 2009, þ.e. strax eftir hrunið, og hverjar voru þær síðan fjórum árum síðar, í janúar 2013? Niðurstaðan er býsna sláandi. Niðurstaðan er sú að heildartekjur þessa hóps á fjögurra ára tímabili hafa aðeins hækkað um 4,7%. Á sama tíma hefur verðbólgan verið 20%. Það þýðir að bara út frá verðbólgunni og hækkun á neysluverði er kjaraskerðing þessa fólks um 15–16% á fjórum árum. Það var 15–16% erfiðara að láta enda ná saman 2013 en fjórum árum áður. Það vantar sjöttu hverja krónu árið 2013 sem var til ráðstöfunar á árinu 2009 og þær voru ekki margar fyrir. Þetta eru þau heimili í landinu sem áttu fyrir erfiðast með að ná endum saman. Hér er augljóslega verk að vinna.

Hægt er að hafa skilning á því að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn geta ekki gert allt fyrir alla. En að þau skuli undanskilja þennan hóp í öllum aðgerðum sem gripið er til, bæði við að létta af sköttum og við að auka útgjöld er auðvitað mikið áhyggjuefni. Þó tekur steininn úr nú á milli 1. og 2. umr., (Gripið fram í: Nú, nú.) um fjárlög þegar tekin er sérstök ákvörðun um að þau 3,5% sem ætluð voru í hækkun á bótunum þegar frumvarpið var lagt fram séu nú sérstaklega lækkuð um (Gripið fram í.) 0,5% vegna breyttrar verðlagsþróunar. Ég verð að segja að það er býsna dapurlegt hjá meiri hluta hv. fjárlaganefndar að menn skyldu ekki hafa haft dug til að ákveða að lífeyrisþegarnir skyldu njóta þessara bættu verðlagshorfa, að fjárhæðin sem búið var að gera ráð fyrir í frumvarpinu eins og það var lagt fram skyldi standa. Ég skora á meiri hlutann að taka þá ákvörðun til endurskoðunar því að þó að menn geti ekki bætt upp alla þá kjaraskerðingu sem varð hjá hópnum eftir hrun er lágmark að halda inni þeim fjárhæðum sem gert var ráð fyrir við 1. umr. þegar frumvarpið er afgreitt við 3. umr. Jafnvel þó að lífeyrisþegar nytu þeirrar 3,5% hækkunar sem gert var ráð fyrir nemur sú hækkun lægri fjárhæð en laun hækka um almennt í landinu og sannarlega er hún langt í frá að vinna upp þá kjaraskerðingu sem þessi hópur hefur orðið fyrir frá hruni.

Við þurfum líka að taka til alveg sérstakrar skoðunar á milli umræðna breytingartillögur okkar í stjórnarandstöðunni við fjárlög sem við gerðum við 2. umr., ef stjórnarmeirihlutinn fellst ekki á þær. Þeir fjórir stjórnmálaflokkar sem skipa stjórnarandstöðuna hafa sem betur fer sameinast um þessar breytingartillögur sem eru þær megináherslur sem við höfum uppi um úrbætur sem gera þarf á fjárlagafrumvarpinu. Þar eru meðal annarra atriða framhaldsskólarnir. Þar hefur sú ótrúlega stefnubreyting orðið að hafa fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla í samfélagi sem lagt hefur áherslu á að skapa fólki tækifæri til að mennta sig og þar sem fólk úr öllum stjórnmálaflokkum hefur talað fyrir aðgengi að menntun, og nú er búið að setja aldursmörk við inngöngu í framhaldsskólana við 25 ár algerlega að þarflausu. Það er nauðsynlegt annaðhvort að þingið verði við tillögum stjórnarandstöðunnar um að leggja þá fjármuni í framhaldsskólann sem geri það að verkum að ekki þurfi að grípa til þessara róttæku takmarkana ellegar þá að fjárlaganefndin taki það atriði til sérstakrar umfjöllunar á milli 2. og 3. umr.

Annað atriði úr þeim áherslum og eitt af því sem hlýtur að valda áhyggjum bæði áhugamönnum um íslenska menningu og ekki síst um lýðræðislega umræðu á Íslandi eru málefni Ríkisútvarpsins. Það virðist hafa verið uppi einhver misskilningur af hálfu varaformanns fjárlaganefndar og kannski alls meiri hlutans í fjárlaganefndinni þar sem ruglað hefur verið saman framlögum til Ríkisútvarpsins, sem voru framlög til rekstrar, og framlögum sem lutu að þeirri miklu skuldaaukningu sem varð eftir hrun hjá Ríkisútvarpinu. Ég vona að útvarpsstjóri hafi gert glögga grein fyrir því um helgina með hvaða hætti því er háttað. Nú blasir einfaldlega við að til að Ríkisútvarpið sé í stakk búið til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar um þjónustu við almenning í landinu vantar verulega fjármuni. Ástæðan fyrir því að þá fjármuni vantar er ekki sú að útvarpsgjaldið sé of lágt. Ástæðan er heldur ekki sú að Ríkisútvarpið eyði umfram útvarpsgjaldið. Nei, ástæðan er sú að af einhverju einkennilegum ástæðum hefur meiri hlutinn uppi áform um að lækka útvarpsgjaldið þannig að það geti ekki staðið undir lögbundnum skyldum sínum. Þar munar mörg hundruð milljónum kr. og er alveg ljóst að ef þeim áformum verður haldið til streitu verður að grípa til mjög alvarlegra ráðstafana í rekstri Ríkisútvarpsins. Það væri langeðlilegast að fjárveitingavaldið hefði þá einhverja forsögn um hvað það væri sem það vildi með breytingunni, hvort það vill þá loka Rás 1 eða draga fréttastofuna saman um helming eða hætta framleiðslu á menningarefni, eða hvaða aðrar stórar ákvarðanir það eru sem þingið vill að útvarpið taki til að Ríkisútvarpið geti haldið sig innan þess fjárhagsramma sem verið er að skapa því. Nei, virðulegi forseti. Hér er um algerlega ónauðsynlega aðför að Ríkisútvarpinu að ræða. Eftir lestur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins um helgina hefur maður vissar áhyggjur af því undan hvaða rótum sú aðför er runnin, hvort hér sé um að ræða pólitíska aðför að sjálfstæði stofnunarinnar í bland við opinberar yfirlýsingar frá varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins um stofnunina. Það getur náttúrlega ekki gengið þannig til í lýðræðisþjóðfélagi að stjórnarmeirihluti hafi í hótunum við hlutlausan fjölmiðil í almenningseigu um að ef hann rétti ekki af kúrsinn fái hann ekki pening. Slíkir stjórnarhættir eru bara ögrun við grundvallarstoðir lýðræðissamfélagsins og það nauðsynlega aðhald sem fjölmiðlar verða að veita stjórnvöldum á hverjum tíma og þá ekki síst Ríkisútvarpið. Það er fjölmiðill almennings, það er ekki í eigu neinna sérhagsmunaafla, það gætir ekki hagsmuna eins hóps í landinu heldur hagsmuna almennings og þarf þess vegna sérstaklega að vera á varðbergi og veita stjórnvöldum á hverjum tíma aðhald og á ekki að þurfa að sitja undir hótunum um að skorið verði af því fé ef mönnum líkar ekki stefnan sem þar er rekin.

Við höfum fylgst með því að gripið hefur verið til mjög róttækra sparnaðaraðgerða í Ríkisútvarpinu á umliðnum árum. Ítrekaðar hrinur uppsagna hafa verið þar og blóðugur niðurskurður aftur og aftur. Ég tel að hér sé einfaldlega komið að þolmörkum og tími til kominn að láta staðar numið og leyfa stofnuninni að rækja hlutverk sitt innan þess ramma sem núverandi útvarpsgjald er.

Það sem hefur valdið okkur hvað mestum áhyggjum á þessum vetri eru hin glötuðu tækifæri til stöðugleika á vinnumarkaði til að tryggja hér langtímaefnahagsuppbyggingu sem reynsluleysi formanna stjórnarflokkanna skapaði síðasta haust. Stjórnarflokkarnir klúðruðu gullnu tækifæri þegar nýkjörnum formönnum ríkisstjórnarflokkanna gafst færi á því í upphafi kjörtímabils að koma að gerð kjarasamninga á vinnumarkaði til lengri tíma þar sem skapast hefði friður til lengri tíma til uppbyggingarstarfs hér í landinu. Þeir voru ekki tilbúnir til að koma að því borði með þær aðgerðir sem þurfti til að tryggja vinnufrið á vinnumarkaði til lengri tíma. Því fór sem fór. Þess vegna voru því miður gerðir samningar á vinnumarkaði til skamms tíma. Þeir eru nú einn af öðrum að rakna upp og við sjáum þegar afleiðingarnar, því miður; vinnudeilu eftir vinnudeilu og kröfugerð sem erfitt er að sjá að unnt sé að koma til móts við vegna þess að menn nýttu ekki tækifærið til að semja á raunsæjum forsendum fyrir ári síðan heldur klúðruðu því og stóðu síðan fyrir launahækkunum hjá hinu opinbera sem voru langt umfram hækkanirnar á almennum vinnumarkaði. Það gerir það aftur að verkum að nú koma eðlilega verulegar kröfur frá almenna vinnumarkaðinum.

En til að bæta gráu ofan á svart grípur ríkisstjórnin til ýmissa aðgerða í þessum fjárlögum sem verða beinlínis til þess að spilla fyrir heildarumgjörðinni um kjarasamninga á vinnumarkaði (Gripið fram í: Óskapleg …) og skapa erfiðleika í þeim viðræðum sem fram undan eru þar. Í því efni er hægt að nefna marga þætti. Einn þeirra eru atvinnulausir. Sem fyrr er farið í að spara á þeim hópum sem erfiðast eiga með að taka til varna. Þar eru 600–700 langtímaatvinnulausir einstaklingar sem eiga að færast yfir á sveitarfélögin á miklu verri kjörum. Verið er að fresta framlögum í VIRK starfsendurhæfingarsjóð jafnvel þó að nú sé sjóðurinn í fyrsta sinn búinn að leggja út verulega fjármuni sem hefðu átt að vera ríkissjóðs, einar 700 millj. kr. nú þegar. Hér er verið að skera niður um nærfellt 700 millj. kr. framlag til að jafna örorkubyrði milli lífeyrissjóða sem kemur náttúrlega sérstaklega illa (Forseti hringir.) við lífeyrissjóði þess fólks sem vinnur í erfiðisatvinnugreinum. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég verð að fá að halda umfjöllun minni um fjárlagafrumvarpið áfram í síðari ræðum.