144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að fara yfir margt í ræðunni og gera athugasemdir. En þar sem hv. þingmaður vék sérstaklega að málflutningi mínum þá tel ég rétt að við ræðum það. Nú er hv. þingmaður þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hann var í stjórnarmeirihlutanum á síðasta kjörtímabili, hann þekkir ríkisreikning og hann heldur því fram að ég fari með rangt mál þegar kemur að ákveðnum upplýsingum.

Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Helgi Hjörvar telur að ríkisreikningur sé rangur þá á hann að gera alvarlegar athugasemdir við það, ég fer fram á það. Það kemur skýrt fram í ríkisreikningi að framlög ríkissjóðs eru nærri milljarði hærri árið 2009 en tekjur af útvarpsgjaldi. Þetta hef ég bent á.

Ég vil fá að vita hvort hv. þingmaður er með einhverjar aðrar upplýsingar. Þetta er þvert á það sem hefur komið fram í fréttum RÚV og þeir hafa ekki viljað leiðrétta. Ég gat ekki greint annað, virðulegi forseti, en að hv. þingmaður væri að taka undir með Ríkisútvarpinu. Ég fer fram á að hann geri það sem í hans valdi stendur til að koma leiðréttingu á framfæri ef ríkisreikningur er rangur.

Á sama hátt vil ég spyrja: Hvaða aðferð er það, eða árás á fyrirtæki, að hækka framlögin um 12%, um 300 milljónir? Hvað á hv. þingmaður við?

Hér er verið að hækka framlag miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar meira en til flestra annarra stofnana. Ég veit að stjórnarandstaðan vill bæta um betur og setja þangað nærri 600 milljónir. En (Forseti hringir.) það getur ekki verið atlaga að fyrirtæki að hækka þetta miklu meira en gengur og gerist annars staðar.