144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Framsóknarflokkurinn ætli að láta það um sig spyrjast að hér komi inn frumvarp frá fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins með tilteknum kjarabótum fyrir öryrkja sem séu síðan milli umræðna undir forustu Framsóknarflokksins í meiri hluta fjárlaganefndar lækkaðar frá því sem þá var ráðgert. Yfirleitt hefur viðleitni hér í þessum sal verið í hina áttina til að reyna þó að lyfta eitthvað aðeins þeim sem verst eru settir við umfjöllun um fjárlög, sérstaklega þegar afgangur er af þeim eins og nú er.

Annað sem er gríðarlega mikilvægt er sú jákvæða þróun sem hefur verið í starfsendurhæfingu því að hún skiptir jú mestu máli við að hjálpa fólki til að geta verið á vinnumarkaði og geta nýtt krafta sína og þurfa ekki að vera á örorku. Þar hefur VIRK unnið gríðarlega mikilvægt starf. Það er þess vegna sérstakt áhyggjuefni að ekki eigi að leggja framlög inn í starfsendurhæfinguna í VIRK til að halda fólki á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að það fari á örorku, heldur eigi VIRK að (Forseti hringir.) bera þann kostnað sem ríkissjóður á að leggja þar til.