144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þá er þriðja verkfallslota lækna hafin, hún hófst á miðnætti og menn sjá ekki til lands í málinu. Það er enn þá 3% hækkun á borðinu þegar krafan er 30%, krafa sem verður aldrei fallist á en allir eru sammála um að 3% muni ekki lenda málinu. Staðan í heilbrigðiskerfinu á Íslandi er náttúrlega þannig að enn þá búum við við mjög góðan grunn þar sem við erum með sérfræðinga, en við erum ekki að bæta við grunninn. Unga fólkið kemur síður heim og ef það kemur heim staldrar það stutt við og fer aftur út.

Mér var sagt í kosningabaráttu stjórnarflokkanna að mannauðurinn væri mesta verðmæti heilbrigðiskerfisins. Miðað við alvarleika þessa ástands, að læknar séu verkfalli í fyrsta skipti í sögunni, og miðað við það að við erum að ræða fjárlög og hvað skuli veita til málaflokksins, og landsmenn hafa sagt að það eigi að forgangsraða í heilbrigðismálin, það er eindreginn vilji þeirra, hvað finnst þingmanninum um að við afgreiðum ekki þessi fjárlög, alla vega ekki fyrr komið er að áramótum, þá verðum við að gera það, en að við förum ekki í jólafrí fyrr en við erum búin að leysa deiluna við lækna?