144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki lagt neitt mat á það hvort við eigum að vera hérna til áramóta vegna þessa máls en það breytir því ekki, eins og ég sagði í ræðu minni, að mér finnst staðan gríðarlega alvarleg og mér finnst forustumenn ríkisstjórnarinnar bera mikla ábyrgð í því að leysa þetta mál, að koma að því þannig að boðlegt sé. Við vitum auðvitað alveg að 3% er ekki boðlegt. Ég ætla ekki að leggja mat á það hvað við getum nákvæmlega boðið læknum svo samningar náist.

Eins og við þekkjum bæði tvö snýst þetta ekki aðeins um launin. Við höfum rætt hérna áður að þetta snýst líka um aðbúnað og það kom fram í máli talsmanna læknanema að hluti af því að leysa deiluna eða það sem þarf til þess að þeir dvelji heima og vilji vinna hér er aðbúnaðurinn. Þetta hjálpast því að. En ég er klár í slaginn og tilbúin til að vera hér mjög lengi. Mér finnst þetta ótrúlega mikið mál og ég hef miklar áhyggjur af því.