144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta snýst um aðbúnað, þetta snýst um vinnuálag og þetta snýst um laun. Þá er spurningin: Hvað er brýnast, er geta til að leysa málið og er vilji til að leysa það? Það sem er brýnast er náttúrlega að semja við lækna núna. Það segja mér allir læknar sem ég tala við, fyrrverandi landlæknir og starfandi landlæknir. Það eru allir sammála um að þetta sé brýnast, við verðum að afgreiða málið.

Svo þarf að sjálfsögðu að setja meira fé í heilbrigðiskerfið í heild og það hefur verið kallað eftir því af forstöðumönnum heilbrigðiskerfisins um land allt, af þessum sjö heilbrigðisstofnunum og spítölunum báðum. Samanlagt vantar 3,1 milljarð upp á það sem þeir segja að nauðsynlegt sé til að veita nauðsynlega þjónustu. Með því að hætta að veita undanþágu fyrir laxveiði á virðisaukaskatti, hann er með undanþágu sem er óskilvirkt — skilvirkt skattkerfi er leiðarljós þessarar ríkisstjórnar og þeir afnema alls konar undanþágur — þá kæmu 1,7 og rúmlega það, kannski tæpir 2 milljarðar kr. á móti þessum 3,1 milljarði kr. Getan til að koma til að koma til móts við þetta er til staðar. Við skulum ekki einu sinni tala um sérstök veiðigjöld. En það er geta, þetta er aðeins spurning um vilja.