144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Fyrirsögn eins kaflans í nefndaráliti hv. þingmanns, 2. minni hluta fjárlaganefndar eins og það heitir á nefndarálitinu, er Óviðunandi vinnubrögð í fjárlagavinnunni. Hún vitnar þar meðal annars í að í útskýringahefti með fjárlagafrumvarpinu sé talað um að virðisaukaskattur eigi að hækka úr 7% í 11% og að það hafi verið gambítur deilna á milli stjórnarflokkanna hvað skatturinn eigi að hækka mikið.

En það er annað í vinnubrögðunum sem ég hef áhyggjur af og það er að mér sýnist fjárlaganefndin vera að taka fyrsta skrefið í því að fara aftur að úthluta þessum safnliðum sem var búið að koma þannig fyrir að þeim væri úthlutað af kunnáttufólki. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún haldi að þetta sé bara fyrsta skrefið í átt að því.