144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta kom alla vega afskaplega flatt upp á okkur í minni hluta fjárlaganefndar, við getum sagt það. Ástæðan fyrir því að þetta er tekið fram meðal annars hjá 1. minni hluta er að búið var að leggja svo gríðarlega mikla vinnu í að útvista þessu til ráðuneytanna og annarra þar til bærra aðila til að úthluta þessum styrkjum, Ríkisendurskoðun hafði komið að málinu og þetta átti að vera betra. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því. Það er þessi þriðji geiri sem talað er um að geti lent á milli skips og bryggju.

Það hefur líka verið rætt um að styrkirnir hafi ekki verið eins miklir og margir eftir að þetta fór til ráðuneyta en við eigum að skoða það, við eigum að fara yfir það að mínu mati en ekki snúa aftur til gamalla hefða þar sem maður þekkir mann og hver getur komið sínu fram. Það er vilji til að breyta vinnubrögðum í fjárlaganefnd og ég vona að við náum að koma þessu aftur til fyrri vegar.