144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að við séum alveg sammála um að allt fjármagn til viðbótar í heilbrigðiskerfið er gott af því að það er búið að vera vannært allt of lengi. Eins og ég sagði áðan þá gerðist það ekki bara við hrunið, það var byrjað löngu áður, því miður af því að það voru kallaðir góðæristímar sem voru það svo ekki. Það er alltaf gott þegar við setjum aukna fjármuni í innviðina en það er alveg ljóst og það heyrum við dags daglega að betur má ef duga skal. Auðvitað þarf, eins og ég veit líka, að byrja einhvers staðar. Um leið og við höfum tækifæri til þess að auka tekjur okkar á þeim tíma sem vöntun er á fjármagni, m.a. í heilbrigðismál og í innviðina, þá skil ég ekki þann forgang að gera það ekki, hvort sem það eru tímabundnar ráðstafanir eða framtíðarskattar eða hvað við viljum kalla það. Ríkissjóður þarf á fjármagni að halda til að bæta innviðina og til að greiða niður skuldir. Meðan svo er þá finnst mér að við eigum að sækja þá fjármuni.