144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta með fjáraukann var, eins og við bæði munum, mikið rætt hér við gerð síðustu fjárlaga og ítrekað við hæstv. ráðherra og fleiri að þetta væri ekki nægt fé. Það sama höfum við gert núna. Við gerðum það í fjárlaganefnd, ekki með neinum óskaplegum þunga en í ljósi þess hvernig málum var fyrir komið áður með því að sækja þetta inn á fjáraukann, það var búið að ráðstafa þessu. Það var ekki nóg með að þetta væri sótt inn á fjáraukann heldur fengum við upplýsingar um það síðsumars að þá þegar væri byrjað að ráðstafa fjármunum sem ríkisstjórnin hafði samþykkt. Bíddu, hún samþykkir ekki neitt, hún leggur til við Alþingi. Við gerðum miklar athugasemdir við það og ég vona að við stöndum ekki frammi fyrir því aftur.

Þetta er auðvitað það sem við megum eiga von á, (Forseti hringir.) að það komi aftur á fjáraukann það sem er ekki óvænt. Þetta er ekki óvænt, við vitum að það þarf fullt (Forseti hringir.) af peningum þarna inn.