144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það var bætt um milljarði í Landspítala og eitthvað töluvert minna í aðra heilbrigðisþjónustuþætti, einhverjar tugmilljónir hér og þar, en þetta er samt sem áður miklu minna en það sem beðið var um, 60% af því sem Landspítalinn bað um og önnur heilbrigðisþjónusta fær miklu minna á heildina litið ef við lítum yfir alla landsbyggðina. Ef við tökum Landspítalann frá þessari tölu þá standa samt sem áður eftir 2,3 milljarðar, þ.e. ef við tökum þessar sjö heilbrigðisstofnanir nýju sem spanna yfir landið allt, svo er Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalinn. Ef við tökum Landspítalann út fyrir sviga þá vantar samt sem áður upp á það sem fjárlög og breytingartillögur meiri hlutans hafa lagt til 2,3 milljarða. Það væri hægt að ná nánast öllu þessu inn með því að hætta að undanskilja laxveiði frá virðisaukaskatti. Hvers vegna ætti hún að hafa slíka undanþágu, þegar verið er að fjarlægja það frá öllu öðru og gera á skattkerfið skilvirkara? Það er klárlega hægt að ná í þá peninga og það er algerlega réttlætanlegt.

Spurningin er: Er þessi milljarður og þeir nokkru tugmilljarðar ofan á hér og þar, er það nóg? Forsvarsmenn heilbrigðisstofnana segja nei, það er bara ekki nóg. Við erum búnir að vera í bakkgírnum svo lengi. Þó að við setjum í fyrsta eða annan gír þá er það ekki nóg. Þá mundi ég segja: Ókei, hvað segja landsmenn allra flokka í öllum kjördæmum? Landsmenn segja: Nú, við eigum að forgangsraða í heilbrigðiskerfið. 60% til Landspítalans? Þeir segja þá: Nei, hvað með þessa 2,3 milljarða sem vantar á landsbyggðinni? Við erum ekki að gera nóg. Landsmenn segja: Við eigum að gera meira. Þeir segja: Við eigum að forgangsraða þangað. En við erum ekki að gera það.