144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er spurt hvort ég telji að ríkisstjórnin taki ástandinu í heilbrigðiskerfinu af léttúð, hvort hún átti sig ekki á stöðunni. Ég bara veit það ekki. Ég var einmitt að hugsa þetta meðan ég hélt ræðuna áðan, ég skil þetta ekki núna þegar læknar fara í verkfall í fyrsta skipti í sögunni. Við vitum hvað heldur í lækna. Við vitum að það sem skiptir máli er aðbúnaðurinn, vinnuálagið og launin. Við vitum að vinnuálagið er gríðarlega mikið og ef læknar fara að segja upp núna í stórum stíl lendir það vinnuálag á þeim sem eftir sitja, sem eru þá líklegri til að hætta sjálfir. Ástandið er augljóslega mjög slæmt og þegar menn enda í slíkum neikvæðum spíral er svo erfitt að snúa við, þangað til þú nærð einhverjum lágmarksbotni. En þá erum við komin á þann stað að vera búin að missa þessa lækna eitthvert annað, við erum búin að missa þá úr landi. Heilbrigðiskerfið okkar fær enn þá bestu einkunnina af því að læknar á Íslandi fara í sérnám erlendis, úti um allan heim, og í bestu háskólana og koma aftur heim til Íslands með sérþekkingu. Þetta er ekki staðan í dag en þannig hefur þetta verið, við höfum haft góða sérfræðinga og að sjálfsögðu verða þeir þá miklu eftirsóttari. Þegar hægt er að bjóða ungum læknum með miklar skuldir upp á að starfa erlendis með tvöfalt til þrefalt hærri laun við töluvert minna vaktaálag og með miklu betri aðbúnað til að sinna sjúklingunum sínum er það ástæðan fyrir því að það eru ekki 80% sérfræðimenntaðra sem koma aftur heim, eins og var hérna þegar fyrrverandi landlæknir, Ólafur Ólafsson, fór í nám.