144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:09]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það sem kom fram í svari hans áðan. Ég vil hins vegar horfa til þeirrar stöðu sem er uppi í heilbrigðiskerfinu og sérstaklega heilbrigðisþjónustunni á Landspítalanum. Það er auðvitað komin ákveðin uppgjöf, ákveðin örvænting í okkar leiðandi fólk og alla þá sem þjóna í þeirri mikilvægu stofnun vegna þess að svör og viðbrögð yfirvalda og ráðamanna um það hvernig framtíðarsýnin í þessum málaflokki á að vera liggja ekki fyrir. Það virðist ekki vera kjarkur, þor eða vilji til að taka af skarið í þeim efnum. Þegar menn horfa á þessa kjaradeilu þá hef ég að minnsta kosti upplifað það þannig, og ég finn það á mörgum öðrum sem ég hef rætt málið við, að málið sé miklu umfangsmeira en spurningin um kaup og kjör í vasanum. Þetta er spurning um aðbúnað, þetta er spurning um aðstöðu, þetta er spurning um vinnuumhverfi, þetta er spurning um það hvernig við ætlum að halda utan um þessa þjónustu og byggja hana upp af einhverri alvöru til komandi framtíðar.

Þá spyr maður: Hvernig geta menn borið því við að það séu ekki til fjármunir til að stíga alvöruskref og sýna viljann í verki í þeim efnum þegar stjórnvöld eru reiðubúin til að gefa til baka á fjórða tug milljarða af þeim fjármunum sem voru inni í skattheimtukerfi ríkisins fyrir rúmu ári síðan? Hvernig má það vera að við þær aðstæður séu stjórnvöld tilbúin að halda því fram að það sé ekki staða eða geta til að fara fram með þetta verkefni?