144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni í síðari ræðu minni um fjárlagafrumvarpið þá ríkisstjórn og stefnu sem blasir við af lestri þess fjárlagafrumvarps sem er til umfjöllunar. Það er nefnilega þannig með mig að ég var reiðubúinn til þess á síðasta ári að gefa þessari ríkisstjórn tækifæri til að sanna sig. Ég var þeirrar skoðunar að það væri fullt tilefni til að gefa mönnum 6–12 mánaða svigrúm til að sanna sig í starfi og koma hér inn með þær áherslur og framtíðarsýn sem forsjármenn þessarar ríkisstjórnar vildu sjá í ríkisrekstrinum.

Nú er þetta fjárlagafrumvarp nr. tvö sem núverandi ríkisstjórn leggur fram og ég verð að segja að það sem blasir við mér er fyrst og fremst skortur á framtíðarsýn. Mér finnst líka skorta mjög á virðingu fyrir verkferlum og virðingu fyrir stjórnsýslulögum og stjórnsýsluvenjum. Ég get tekið dæmi af því sem ég nefndi í andsvari fyrr í dag við ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Þar var tekin ákvörðun á síðasta ári um massífan niðurskurð á þessu ári og í rauninni svo mikinn að það var algerlega fyrirsjáanlegt að það mundi aldrei duga fyrir þeim verkefnum sem blöstu við á árinu, og svo er það leiðrétt með 380 millj. kr. innspýtingu á fjáraukalögum núna. Þetta er ekki mjög vönduð vinna. Fjáraukalög eru ætluð til að mæta óvæntum uppákomum, óvæntum útgjöldum sem enginn hefur séð fyrir en er eitthvað sem ríkið hefur neyðst til að bregðast við.

Annað dæmi sem hægt er að nefna í því samhengi er flutningur Fiskistofu norður sem í raun er ákvörðun sem er fullt tilefni til að ræða, ákvörðun sem er ekki algalin hugmynd en slíkar ákvarðanir þarf hins vegar að taka með aðdraganda og á opinn og vandaðan hátt, ekki með því að tilkynna fyrirætlan í einu vetfangi og þannig er á svipstundu grundvelli og framtíðarplönum einnar stofnunar hent upp í loft. Sams konar stjórnsýsla og virðing fyrir verkferlum birtist í ákvörðun hæstv. forsætisráðherra á síðasta hálftímanum sem hann starfar sem dómsmálaráðherra þegar hann flytur lögreglustjórann á Höfn í Hornafirði til Austurlandsumdæmis lögreglunnar, þvert á allan undirbúning og þvert á allar ráðstafanir og fyrirætlanir í fjárlögum o.s.frv. og algerlega án útskýringa.

Sú ríkisstjórn sem blasir við mér í gegnum þessi fjárlög er svona: Hún er óvönduð, hún vandar sig ekki, hún slumpar fram og til baka. Það er ekki búið að undirbyggja ákvarðanatökuna. Það er verið að reka ríkissjóð eins og menn séu að spila Matador eða Útvegsspilið. Það eru engar skýringar gefnar á ákvörðuninni, ef það vantar svör og vantar rökstuðning og bent er á það þá er bara yppt öxlum. Eins og til dæmis á síðasta ári þegar menn bentu á að niðurskurður niður í 260–270 milljónir til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða mundi hvergi duga var ekkert gert í því. Nú er það þannig að einhverjir þingmenn stjórnarliðsins hafa gert það sem ég mundi kalla mjög alvarlegar athugasemdir við það fjárlagafrumvarp sem hér er á ferðinni, eins og t.d. hvað varðar fjárútlát til Ríkisútvarpsins. Það er óskiljanleg ákvörðun af hálfu meiri hlutans. Þar er verið að taka þá ákvörðun að láta útvarpsgjaldið renna óskipt til stofnunarinnar. Það er gott og vel. En á sama tíma er tekin sú ákvörðun að lækka útvarpsgjaldið, ef ég man rétt úr 19.400 kr. í 17.800. Þetta er ákvörðun sem hefur í raun og veru ekki bein áhrif á sjóðstreymi í ríkissjóð, hefur engin áhrif á fjárhagsstöðu ríkisins en hefur þau áhrif á Ríkisútvarpið að það þarf á næsta ári, ef svo fer sem fram horfir, að skera niður um 600–900 millj. kr. sem eru nú engar smániðurstöður, sem eru engar smáafleiðingar fyrir jafn mikilvæga stofnun í hugum landsmanna og Ríkisútvarpið. Hver er rökstuðningurinn? Hann finnst ekki. Hver er ákvörðunin á bak við þetta? Hver er stefnan með Ríkisútvarpið? Á sama tíma og næstum því milljarða niðurskurður liggur fyrir er lagt fram frumvarp sem breytir tilgangi, eðli og markmiði þessarar stofnunar. Er hlutverk hennar endurskilgreint í samræmi við þær fjárheimildir sem hún fær? Nei, enginn rökstuðningur. Engin hugsun. Engin framtíðarsýn. Bara slumpað út einhverjum upphæðum og svo séð til hvað gerist. Þetta er ríkisrekstur sem skrifaður er aftan á umslag eins og ekkert sé. Þetta eru óvönduð vinnubrögð og það er óvönduð ríkisstjórn við völd í þessu landi. Það blasir við af þeim dæmum sem ég er að taka hér. Við erum að horfa á ákvarðantöku sem er ekki undirbyggð með rökum og rannsóknum og bestu manna yfirsýn. Það eru alls konar skrýtnar ákvarðanir teknar í þessari ríkisstjórn sem erfitt er að skilja. Ég get nefnt nokkur dæmi. Ég get nefnt af handahófi ákvörðun um að láta annars ágætan stjórnmálafræðiprófessor, Hannes Hólmstein Gissurarson, rannsaka hrunið og gera skýrslu um hrunið. Það er vægast sagt umdeild ráðstöfun og má velta fyrir sér hvaða dómgreind liggur þar að baki eða hvers lags eiginlega friður muni verða um niðurstöðu slíkrar vinnu. Hver er skýringin? Hún er engin.

Menn vita í mjög mörgum tilfellum að þær ákvarðanir sem er verið að ráðast í af hálfu þessarar ríkisstjórnar munu verða verulega umdeildar, þær munu ekki verða til að auka sáttina í samfélaginu, munu ekki verða til þess að bæta stjórnmálin en samt sem áður verður ráðist í þær. Það sem birtist síðan á prenti í því fjárlagafrumvarpi sem hér er til umræðu er óvönduð ríkisstjórn sem vandar ekki til verka, undirbyggir ekki ákvarðanir sínar.

Ég hef flutt ræðu um stöðuna í heilbrigðiskerfinu og hvernig hún birtist mér og þær viðbætur sem verið er að leggja til í breytingum meiri hluta fjárlaganefndar duga hvergi nærri til til þess að mæta þeim grafalvarlega vanda sem þar blasir við. Það er langt í frá að það dugi til. Það er ekki við núverandi ríkisstjórn eina að sakast í þeim efnum en í mjög mörg ár hefur verið niðurskurður til heilbrigðismála sem hefur á síðustu árum komist á það stig að ef menn gefa ekki almennilega í verður varanlegur skaði, (VigH: Það er undir forustu Samfylkingarinnar.) sem verður erfitt að grípa inn í. Hér kallar hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir fram í og segir að þetta hafi verið undir forustu Samfylkingarinnar. Já, já, það er alveg hægt að gera því skóna að það hafi verið henni að kenna að út í þetta fór en hvað blasti við þeirri ríkisstjórn sem Samfylkingin og Vinstri grænir tóku við? Hvað blasti við henni? Gat upp á 216 milljarða, ef ég man rétt. Það er verkefni sem ég held að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir mundi svitna yfir, ef það blasti við henni að fara í eitthvað slíkt. Eða kannski svitna menn ekki neitt sem sjá fyrir sér nokkrum árum seinna að geta eytt 80 milljörðum í skuldaleiðréttingar og á sama tíma talað um að þeir séu að sýna sérstakan aga í ríkisfjármálum, (Gripið fram í.) það sé sérstakt aðhald sem menn sýna með því að ráðast í slíkar ráðstafanir. Ég heyri að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kann ekki alveg við að sitja undir þessu en svona er þetta einfaldlega. Svona blasir þetta við þeim sem fara yfir þetta fjárlagafrumvarp og velta fyrir sér hvaða framtíðarsýn sé á ferðinni þar. Það er ekki mjög jákvæð og fín framtíðarsýn.

Hvaða heildarhugsun er á bak við tekju- og útgjaldafrumvörp þessarar ríkisstjórnar? Það er að skera niður til íslenskrar menningar, skera niður til þjóðararfsins, skera niður til Ríkisútvarpsins, skera niður og auka kostnað í bókaútgáfu, auka kostnað í tónlistarúgáfu, þeim gróskusprotum sem urðu til í kjölfar hrunsins og eru björtu hliðarnar á því sem úr því kom. Það er verið að gera óhollan mat ódýrari en gera allan mat dýrari, gera græjur ódýrari. Maður veltir fyrir sér hvaða heildarhugsun sé á bak við þetta. Hvert eru menn að fara með samfélagið sem hagar sér með þessum hætti? Það væri fróðlegt að heyra þá framtíðarsýn. Hún blasir að minnsta kosti ekki við mér.

Mig langar líka að nefna að það er ekki verið að taka á afgerandi hátt á því sem skiptir mjög miklu máli í rekstri ríkissjóðs og er skuldsetning hans. Menn gætu á þessum tímapunkti einbeitt sér rækilega að því að skera niður skuldir ríkisins. Og menn gætu auðvitað miklu betur en hér er gert skoðað alla tekjumöguleika. Það er því miður ekki verið að gera þetta af miklum metnaði. Í mínum flokki, Bjartri framtíð, höfum við sagt að við séum tilbúin til að styðja allar tillögur sem byggja á góðum rökum og upplýsingum og leiða til raunverulegs sparnaðar og betri nýtingar á fjármunum, hæfileikum, vinnu og tíma. Okkar markmið er að tryggja að borgurum landsins sé veitt sem best þjónusta og sem best skilyrði til lífsviðurværis innan fjárhagsrammans.

Við leggjum mikla áherslu á það að horfa til lengri tíma í bæði tekjum og úgjöldum, þannig að stofnanir samfélagsins geti gert langtímaáætlanir en séu ekki háðar óvissu fjárlaga hvert ár. Það er því miður það sem blasir við enn einu sinni í þessu. Hér er allur rekstur ríkisins settur í uppnám með árlegu millibili. Síðan bíða menn í ofvæni eftir leiðréttingum og breytingartillögum frá meiri hlutanum til að sjá hver raunveruleikinn verður. Í rauninni er það svo að það eru enn þá stofnanir í samfélagi okkar, þrátt fyrir að við séum komin langt fram í desember, sem bíða eftir því að sjá hvernig endanleg niðurstaða verður í þessum efnum. Og það er algerlega útilokað fyrir nokkra stofnun að gera nákvæmar áætlanir sem geta staðist, bæði hvað varðar þá þjónustu sem veita á og ekki síður hvaða skattarammi bíður.

Mig langar aðeins til að fjalla um það metnaðarleysi sem birtist í fjárframlögum til samgangna, bæði almenningssamgangna og samgönguframkvæmda. Það er ekkert sem er jafnmikilvægt í þeim efnum eins og að eyða hættu í vegakerfinu, að auka umferðaröryggið. Það er mjög ánægjulegt að sjá til dæmis á Hellisheiðinni núna að búið er að breikka Kambana, ákvarðanir sem voru teknar fyrir nokkuð löngu, búið að skilja á milli akstursstefna. Það er auðvitað eitthvað sem maður hefði sjálfur viljað sjá á þeim þungu umferðaræðum sem liggja úr borginni og þá er ég að tala um leiðina norður upp í Borgarnes, að ekki sé búið að ráðast í sambærilegar aðgerðir þar, breikka þessa vegi og aðskilja akstursstefnur. Ég hef verið algerlega ófeiminn við að ræða óhefðbundnar fjámögnunarleiðir í því samhengi, einhvers konar útfærslu af veggjöldum eða fjármögnun sem felur það í sér að við getum flýtt framkvæmdum sem auka umferðaröryggi, sem aðskilja umferð á álagsstofngreinum og gera alla öruggari í umferðinni. Það er mjög ánægjulegt að alvarlegum banaslysum hefur, alla vega síðustu tvö ár, fækkað nokkuð. Það hefur verið sýnt fram á að það sem skiptir mestu máli í þeim efnum er að menn séu með svokallaða núllsýn í umferðaröryggi, það sé stefnt að því að slysum sé fækkað þannig að engin slys verði, það sé lögð áhersla á það við hönnun vega, við fjárveitingar til vegaframkvæmda að stefnt sé að því að fækka slysum. Svo eru aðrir þættir sem spila inn í vegaframkvæmdir og samgöngur, eins og t.d. virðisaukandi áhrif, tenging byggðarlaga, tenging atvinnusvæða o.s.frv. sem skipta auðvitað máli, byggðamál og byggðamálefni sem þarf að horfa til líka. En það að setja alvörufjármuni í það að aðskilja akstursstefnur og almennt að gera stofnæðarnar breiðari og líka að standa straum af nauðsynlegu viðhaldi eru gríðarlega mikilvægir þættir sem að mínu mati er ekki haldið nægilega vel utan um. Því miður er það svo að í þeirri ágætu fastanefnd sem ég sit í á vettvangi þingsins, umhverfis- og samgöngunefnd, erum við ekki einu sinni farin að sjá samgönguáætlun og enginn veit í raun hvað er að frétta af þeirri vinnu, hvort það sé ætlun ráðuneytisins eða ráðherrans að skila inn vinnu í þeim efnum. Þegar um það er rætt hvað sé á ferðinni í innanríkisráðuneytinu get ég ekki látið hjá líða að velta fyrir mér hver staðan sé í umhverfismálum. Þessi ríkisstjórn hefur, sem kunnugt er, ekki haft fyrir því enn þá að skipa sérstakan umhverfisráðherra og því miður hefur umhverfisráðuneytið verið einhvers konar skúffuráðuneyti hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni, og þar eru málaflokkar sem maður mundi gjarnan vilja sjá að spýtt væri svolítið í lófana.

Þá vil ég sérstaklega nefna friðlýsingar en það hefur algerlega setið á hakanum hjá núverandi ríkisstjórn. Það eru sáralitlir ef nokkrir fjármunir settir í slík verk. Svæði sem sett hafa verið í verndarflokk rammaáætlunar eiga að því loknu að fara í friðlýsingu. Friðlýsingarferli var hafið í Þjórsárverum þegar þessi ríkisstjórn kom til starfa. Það var búið að baka kökurnar, þeyta rjómann og hella upp á kaffið þegar hæstv. ráðherra ákvað að afturkalla það friðlýsingarferli sem þar var um það bil að verða innsiglað. Hvað hefur gerst síðan þá í þeim efnum? Ekki neitt. Ekki nokkur skapaður hlutur nema það að ríkisstjórnin hefur sýnt á spilin hver hennar vilji sé í þeim efnum, hvaða hugmyndir séu á ferli innan ríkisstjórnarinnar þegar kemur að virkjunarhugmyndum og umgengni við náttúru Íslands og umgengni við löggjöf um náttúruvernd, löggjöf um vernd og nýtingu svokallaðra virkjunarhugmynda, virkjunarkosta. Þar stendur miklu frekar til að fjölga virkjunum, færa einhliða úr biðflokki yfir í nýtingarflokk án þess að fyrir liggi nokkrar áætlanir um sölu orku, án þess að fyrir liggi fagleg vinna um röðun þessara verkefnakosta. Ég sá það um daginn að verið var að endurgreiða Landsvirkjun, ég held að ég hafi séð það í Viðskiptablaðinu, 2 milljarða út af orku sem ekki var nýtt í álverið í Straumsvík eftir virkjun Hálslóns á Búðarhálsi, Hálslónsvirkjun, þ.e. orka sem fór forgörðum. Þetta er skólabókardæmi um rassvasabókhald og óvönduð vinnubrögð, skólabókardæmi um það hvað gerist þegar menn fara af stað, virkja bara eitthvað og sjá svo til hvað gerist þegar virkjuninni hefur verið komið á fót, ekkert fast í hendi. Það eina sem situr eftir er að menn eru búnir að sökkva miklu af landi.

Nú tek ég það fram að þarna var á ferðinni virkjun sem margir voru sammála um, m.a. sá sem hér stendur. Hvar er framtíðarsýnin sem birtist í þessu? Hvar eru vönduðu vinnubrögðin? Þau er ekki að sjá í þessari fjárlagagerð. Það er óvönduð ríkisstjórn sem blasir þar við.