144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Jú, virðulegi forseti. Ég mundi að minnsta kosti segja það að ég vildi fá að sjá að einhver áætlun væri í gangi, að menn væru að vinna eftir einhverju plani til framtíðar í þessum efnum, að þetta væri ekki bara byggt á einhverjum svona hugdettum og vangaveltum einstakra ráðherra í ríkisstjórninni eins og er allt of algengt í núverandi ríkisstjórn, að menn séu bara með einhverjar handahófskenndar ákvarðanir fram og til baka.

Ég held að í mjög mörgum tilfellum þar sem við erum að horfa á tengivegi þá séu menn ekki búnir að setja nándar nærri því nógu mikið í það. Ég tek dæmi um ferðamannavegi eins og Kjalveg á sumrin þar sem myndast algert ófremdarástand ár hvert. Það er algerlega óviðunandi ástand sem þar myndast á vegum.

Svo eru auðvitað stærri framkvæmdir eins og Dýrafjarðargöng, sem hv. þingmaður nefndi, sem er dæmi um aðgerð sem getur stuðlað mjög að bættu umferðaröryggi, styttir auðvitað gríðarlega leiðir um vetur á milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða, og er á sama tíma mjög virðisaukandi að því leytinu til að hún býr til eitt stórt vinnusvæði úr aðskildum byggðum sem eru mjög aðskildar, alla vega að vetri til. Það er dæmi um aðgerð sem menn mundu vilja fá að sjá að væri sett niður og væri komin á teikniborðið. Það er því miður ekki að finna neina framtíðarsýn í þessum efnum hjá núverandi ríkisstjórn.