144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður hefur gjarnan talað um, eins og fleiri hér, þann niðurskurð sem er áætlaður á Ríkisútvarpið. Ég verð að koma því hér að að mér finnst það eiginlega ekki sæmandi málflutningur þegar þeir sem standa fyrir því segja að nú eigi Ríkisútvarpið að fá fullt útvarpsgjald en ætla um leið að lækka útvarpsgjaldið um 15% á tveimur árum. Það á ekki að klæða aðgerðir á þennan hátt.

Látum svo vera að þetta eigi að fara fram. Þá vil ég spyrja þingmanninn: Er ekki nauðsynlegt, áður en það er gert, að lögunum um Ríkisútvarpið verði breytt eða farið ofan í það þannig. Það virðist vera þannig að það geti ekki uppfyllt skyldu sína með þeim fjárframlögum sem áætluð eru til næstu tveggja ára.