144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:50]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú þannig í okkar blessaða þjóðfélagi að við erum fámenn en engu að síður sjálfstæð og einangruð. Þess vegna höfum við þurft að koma okkur upp innviðum miklu stærri þjóðar. Við erum með innviði á við tveggja til þriggja milljóna manna þjóð, en við höfum sparað okkur ýmislegt. Stundum talað um að við séum eins og músarhamur sem strekkja þarf yfir beinagrind af fíl. En við höfum sparað okkur ýmislegt, við erum til dæmis ekki með her. Það er margt sem við rekum með frjálsum framlögum. Hluti af heilbrigðiskerfinu hefur verið rekinn með frjálsum framlögum kvenfélaga, alls konar frjálsra og óháðra félagasamtaka og hvers konar safnana. Eins má nefna Happdrætti Háskólans sem hefur að hluta staðið straum af kostnaði við byggingar Háskóla Íslands.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, við höfum borið gæfu til þess að vera mjög samstiga um að byggja upp gríðarlega öflugt heilbrigðiskerfi. Ef við værum ekki með góða lækna og góð sjúkrahús þá stæði ég ekki hér í dag. Ég er góður vitnisburður um það og hæstv. forseti er ágætisvitnisburður um hvað það er mikilvægt fyrir okkur að vera með öflugt heilbrigðiskerfi sem getur gripið inn í þegar slysin verða eða þegar eitthvað bjátar á í lífi fólks.

Ég tók eftir því þegar ég lá á sjúkrahúsi síðastliðið vor að þó að aðhlynning starfsfólksins sé frábær og upp á 10 er auðvitað ýmislegt farið að gefa sig í þeim húsakosti sem við eigum. Það er raki í gluggum. Það er móða á milli glerja. Það sveppur á sumum stöðum. Það gengur ekki að halda þannig áfram. Þær viðbætur og breytingartillögur sem við komum með eða sem meiri hlutinn leggur fram duga hvergi nærri til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Við þurfum þjóðarátak og þjóðarsamstöðu til að gera það.