144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:54]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er nú talsmaður þess að menn reyni eftir fremsta megni með breytingartillögum að leiða samningana í ljós og koma með einhverja framtíðarsýn sem verður valkostur fyrir kjósendur í landinu. Ef ríkisstjórnin er ákveðin í því að gera hlutina með þessum hætti verður hún auðvitað að gera það. Það er meiri hluti fyrir því á bak við þessa ríkisstjórn, því miður. En við getum ekki nógsamlega varað við afleiðingunum af því að svelta heilbrigðiskerfið með þeim hætti sem gert er hér. Það er hlutverk okkar hér að halda áfram að gera það og hafa það algerlega á hreinu hver framtíðarsýn okkar er í þessum efnum.

Því miður deilum við þeirri sýn ekki með þeirri ríkisstjórn sem er í landinu. Ég held að almenningur í landinu verði að sjá það sjálfur hvert stefnir í þessum efnum. Við verðum að fá liðsinni hans til þess að (Forseti hringir.) breyta því og svo menn muni setja það fjármagn í heilbrigðismál sem dugir til framtíðar.