kjaradeila lækna.
Herra forseti. Því er auðsvarað, það er afar brýnt að deilan leysist, að við náum samningum við lækna um breytt kjör. Það er fleira þar undir en launataflan ein og sér. Vinnufyrirkomulagið virðist vera vaxandi þáttur í þeirri óánægju sem hefur birst okkur í þessari kjaradeilu. Hér er úr mjög vöndu að ráða. Haldnir hafa verið 30 fundir vegna deilunnar en læknar eru á þrítugasta fundinum með sömu skilaboðin og á fyrsta fundinum. Ríkið hefur komið með tillögur inn á þá fundi sem ekki nægja til þess að leysa deiluna, því miður. Það er rétt að okkur er mjög umhugað um stöðugleikann í landinu og við vitum að horft er til þess hvað einstakar stéttir geta bætt kjör sín vegna þess að það getur haft keðjuverkandi áhrif yfir á aðrar stéttir. Við öll sem búum í þessu landi viljum hafa öflugt heilbrigðiskerfi og gera eins vel við lækna og hægt er en við viljum líka að það sé stöðugleiki í landinu, lág verðbólga og að því sem er til skiptanna sé dreift með sanngjörnum hætti. Það er afar erfitt að fylgja þeirri slóð ef orðið verður við þeim kröfum sem hafa verið uppi á borðum. Það má velta fyrir sér hvort hér sé verið að kalla eftir margra tuga prósenta hækkunum og að það sé mögulega uppi einhver ágreiningur í þinginu um hvaða áhrif það kynni að hafa.
Annað sem væri fróðlegt að taka með í þessa umræðu og velta fyrir sér, í ljósi þess að almennur læknir á Landspítalanum er með um 1,1 milljón á mánuði í heildarlaun og yfirlæknar með um 1.350 þúsund í heildarlaun, er hvort það sé sanngjörn krafa að við bætist um það bil ein meðalmánaðarlaun fólks í landinu í þessu skrefi, í þessari kjarabaráttu og hvort hv. þingmaður (Forseti hringir.) telji rétt að taka til endurskoðunar þá miklu hækkun á hátekjuskattinum sem læknar lenda vissulega í, en þeir fá á sig um 6% viðbótarskatt. (Forseti hringir.) Það lítur afskaplega einkennilega út ef það er almenn samstaða í landinu um að hækka þessi laun.