kjaradeila lækna.
Virðulegi forseti. Af því að hæstv. ráðherra beinir hér fyrirspurn til mín þarf engum að koma á óvart að ég aðhyllist að sjálfsögðu þrepaskipt skattkerfi til tekjujöfnunar. Það er eðlilegra að þeir sem betri laun hafa leggi meira af mörkum til samfélagsins. Þeir standa samt betur eftir. Mér finnst kannski ekki rétt að blanda því inn í þessa umræðu. Ég ætla heldur ekki að leggja mat á kjaradeilu sem ég er ekki aðili að. Formaður samninganefndar lækna hafnar því að þau séu að krefjast 50% hækkunar.
Það sem mér sýnist deilan snúast um er ekki síst vinnufyrirkomulagið sem hæstv. ráðherra nefndi, að grunnlaunin séu talsvert lægri en þær heildartekjur sem hægt er að hafa upp úr því ef vinnuframlagið er mikið. Það sem ég vil hins vegar biðja hæstv. ráðherra að íhuga, af því að hann er að ræða um stöðugleika, að stöðugleiki verður ekki aðeins mældur í efnahagslegum stærðum. Það er gríðarlegur óstöðugleiki fólginn í því ef heilbrigðisþjónustan riðar hér beinlínis til falls, ef við söfnum upp aðgerðum fram í tímann, búum til lengri biðlista en áður, sköpum óþarfaálag á almenning í landinu. Samfélagið snýst líka um gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu, það eru líka lífsgæði fólgin í því (Forseti hringir.) þannig að ég held að við þurfum líka að mæla stöðugleikann í því, hæstv. ráðherra.