144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrsta frétt á netmiðlunum í morgun þegar ég vaknaði eftir veisluhöld í gærkvöldi var: „Ójafnræði í heiminum sagt tefja fyrir efnahagsvexti.“ Í inngangi fréttarinnar var sagt, með leyfi forseta:

„Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, hefur í nýrri skýrslu sem birt er í dag komist að þeirri niðurstöðu að svokölluð lekahagfræði, eða brauðmolakenning, þar sem gert er ráð fyrir því að fátækari íbúar heimsins hagnist á því að hinir ríku verði sífellt ríkari, standist ekki.“

Þessi frétt er á visir.is. Skömmu seinna í sömu frétt stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Lekahagfræðin var ein af burðarkenningum þeirra Margrétar Thatcher forsætisráðherra Breta og Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og var henni hampað víða um heim áratugina á eftir á þeim forsendum að með því að ýta undir auðsöfnuð eða að „stækka kökuna“, eins og það er stundum kallað, væru allir að græða.“

Af hverju byrja ég ræðu um fjárlög íslenska ríkisins með þessari tilvitnun? Ástæðan er afar einföld. Sú ríkisstjórn sem kosin var til valda á síðastliðnu ári hefur í verki og gjörðum aðhyllst þessar kenningar. Hver hefur ekki heyrt úr ræðustóli Alþingis frá stjórnarliðum: Stækkum kökuna, þá græða allir? Eða: Peningar sem einstaklingar fá í arð af t.d. gríðarlegum afgangi sumra fyrirtækja munu skila sér til heildarinnar? Þannig græði öryrkjarnir og hinir fátæku á slíkum arði. Skilaboðin til almennings eru: Bíðið bara á gólfinu eða við fótskör hinna ríkari. Nokkrir brauðmolar af allsnægtarborðinu gætu dottið ef þið eruð heppin og ef þið hagið ykkur vel. Það er jólaboðskapur núverandi ríkisstjórnar.

Ég hef hvorki aðhyllst þessar kenningar né þá einföldun að telja að vinna og gróði fyrirtækja sé aðalforsenda velferðarsamfélags. Ég hef löngum gert mér grein fyrir að vinna og velferð hafa gagnkvæm áhrif. Öflugt atvinnulíf leitar inn á svæði þar sem er gott samfélag, öflug velferð og öfugt. Auðvitað skilar vinna sér til velferðarinnar, gott atvinnulíf styður við velferðina.

Ég sagði að ríkisstjórnin aðhylltist brauðmolakenninguna, a.m.k. virðist hún hafa einsett sér að hygla þeim sem mest hafa en vanrækja þá sem eiga undir högg að sækja, vanrækja þá sem búa við örorku eða fötlun eða fátækt af ýmsum ástæðum. Rökin hafa verið þau að ef vel sé gefið á jötuna til þeirra sem meira hafa skili það sér til hinna. Því miður er það ekki þannig.

Kenningin er líka byggð á misnotkun á hugtökunum „frelsi“ og „traust“. Hægri öflin misbeita þessum orðum og telja mikilvægt að lækka skatta, minnka samneyslu þannig að hver og einn geti haft frelsi um hvernig hann ráðstafi sínum peningum. Og gjarnan fylgir spurningin: Treystið ekki fólki til að taka ákvarðanir um eigið líf? Hugmyndir um samábyrgð og samtryggingu víkja alltaf fyrir þeim sjónarmiðum. Öllum ætti að vera ljóst að íslenskt samfélag má ekki og á ekki að leyfa sér að skilja þá eftir í fátækt eða nauð sem af ýmsum óvæntum og ófyrirséðum ástæðum lenda í vandræðum. Núverandi hægri stjórn á Íslandi aðhyllist þá stefnu að lækka skatta. Að vísu hefur aðeins ein skattalækkun átt sér stað sem snýr að heimilunum, aðeins ein enn sem komið er. En á sama tíma og ríkisstjórnin segist vera að lækka skatta þá eykur hún gjaldtöku á fólki. Hún hækkar notendagjöld, nefskatta, eykur álögur á nemendur, eykur álögur á sjúklinga, en greiðslur sjúklinga hækka í þessum fjárlögum, og frá því að ríkisstjórnin tók við, um tæpa 2 milljarða ef það frumvarp sem hér er verið að fjalla um verður samþykkt óbreytt. Núverandi hægri stjórn vill einnig minnka samneysluna, minnka réttindi opinberra starfsmanna svo auðveldara verði að deila og drottna. Ítrekað hafa fulltrúar þessara afla, oftast þó formaður og varaformaður hv. fjárlaganefndar, sagt að skera þurfi að skera niður, minnka umsvif ríkisins, lesist: minnka samtrygginguna, hygla þeim sem mest hafa. En þrátt fyrir stefnu núverandi ríkisstjórnar búum við svo vel að tekjur eru að aukast og kostnaður af atvinnuleysi og ýmsum afleiðingum hrunsins er að minnka. Í fyrsta skipti í mörg ár er verið að ræða um hvernig skipta eigi þessum tekjum á milli aðila í samfélaginu. Sú skipting er mælikvarði á ríkisstjórn, á forgangsröðun hennar og vilja til að skapa réttlátt samfélag.

Þá getur maður spurt: Vinna fjárlögin fyrir árið 2015 gegn fátækt? Bæta fjárlögin fyrir 2015 stöðu öryrkja og lífeyrisþega sem hafa hvað lökust kjörin? Er hækkun á virðisaukaskatti á matvælum líkleg til að jafna stöðu fólks í samfélaginu? Eru auknar álögur á sjúklinga líklegar til að bæta kjör þeirra sem minnst hafa og koma í veg fyrir fátækt? Svari nú hver fyrir sig.

Þegar við ræðum sjúklingaskatta er það ein af breytingartillögum minni hlutans við fjárlagafrumvarpið, sameiginleg tillaga um að auka framlög til að leggja af þær hækkanir og þá sjúklingaskatta sem þar eru boðaðir. Það framlag verði alls um 1.900 millj. kr. til að tryggja að ekki verði aukið á misrétti í samfélaginu með þessum hætti.

En það má halda áfram að spyrja. Er hækkun nemendagjalda og nú hugmyndir um að láta nemendur framhaldsskóla greiða t.d. fyrir rafræn námsgögn leið til að auka jafnrétti til náms? Er ákvörðun um að hverfa frá því sem var þó boðað í fjárlagafrumvarpinu um 3,5% hækkun almennra lífeyrisgreiðslna og lækka þær niður í 3% líklega til að bæta stöðu þess hóps sem ég hef verið að fjalla um? Ég held að öllum sem kynna sér málið sé ljóst að þarna fara ekki saman orð og efndir. Menn þykjast lækka skatta en hækka síðan gjaldtöku og auka á ójöfnuðinn í samfélaginu.

Til að vinna gegn þessu leggur minni hlutinn fram tillögu um að hækka framlög til lífeyristrygginga um 640 millj. kr. En það verður að segjast alveg eins og er að minni hlutinn gerði sér ekki grein fyrir því að í einum lið var áætlun um hækkun á bótum um 3,5% lækkuð í 3%. Það hafði ekki verið svo mikið sem rætt í fjárlaganefnd þannig að mönnum væri ljóst að verið væri að breyta þessu. Þegar þjóðhagsspáin kom, um leið og færi gafst, gripu menn tækifærið til að klípa aðeins af í staðinn fyrir að leyfa þeim hópi sem á hvað mest undir högg að sækja í samfélaginu að njóta þess að fá hugsanlega örlítið meira á næsta ári heldur en einhver annar.

Í þessu samhengi höfum við orðið vitni að því að það er vandræðagangur varðandi víxlverkanir á milli lífeyrisgreiðslna og greiðslna úr lífeyrissjóðum, víxlverkanir sem voru afnumdar með samkomulagi árið 2011. Síðan rann það ákvæði út um síðustu áramót vegna þess að það áttu að vera komin ný lög um almannatryggingar en það náðist því miður ekki. Það kemur í ljós í desember að ekkert er búið að vinna í því máli eða ekki nægjanlega mikið til að koma með útfærðar tillögur. Að vísu var lagt fram frumvarp fyrir rúmlega viku sem á þá að fara að afgreiða hér á tveimur vikum. Þó að stjórnarandstaðan hafi tjáð sig fúsa til að gera allt til hjálpar veit ég ekki hvernig það mál endar, en ef menn framlengja ákvæðið óbreytt kostar það ríkissjóð 1,1 milljarð. Á móti getum við orðað það öðruvísi, þá fá öryrkjar, lífeyrisþegar 1,1 milljarð. Nú er verið að leita leiða til að skera þetta niður um helming og breyta þessu með því að finna flókna útreiknireglu og það verður þá að vera á ábyrgð meiri hlutans ef hann ætlar að keyra það í gegn. En það er alveg ljóst og verður að segjast þeim til hróss sem hafa fjallað um þetta mál í velferðarnefnd að allir eru sammála um að þessar víxlverkanir mega ekki byrja að nýju. Það verður að stöðva þær strax.

Ég sagði að við værum að slást þarna um 3,5% eða 3%, þ.e. hálft prósentustig. Ég sagði líka fyrr að eina skattalækkunin sem komið hefði beint til launafólks væri tekjuskattslækkun á þá sem eru í öðru skattþrepi eða ofar, með tekjur frá tæplega 300 þús. kr. og upp úr. Það var lækkun um 0,5% á tekjuskatti. Það er svolítið grátbroslegt að fylgjast með því að það er akkúrat hálft prósentustig sem við erum að tala um gagnvart öryrkjum og þeim sem ná aldrei því marki að fá tekjuskattslækkunina. Þeir hefðu kannski geta fengið 0,5% til viðbótar í fjárlögum næsta árs. Nei, það á að klípa það í burt.

Ég sagði að aðeins ein lækkun hefði komið til launþega. Það er ekki alveg satt vegna þess að þeir sem reka fyrirtæki geta í ákveðnum skilningi flokkast sem launþegar. Þannig hafa gjaldtökur eins og varðandi veiðigjaldið stórlækkað og auðlegðarskatturinn er lagður af. Það er sá hópur sem ríkisstjórnin telur að þurfi sérstaklega að hlúa að og létta af byrðum og nemur það 10 milljörðum kr. á ári. Skoðið það í samhengi við það sem bætist við á hinn endann.

Ef við skoðum stefnu stjórnarinnar og skoðum fjárlögin með tilliti til þess hvort þau bæta stöðu almenns launafólks eða auka réttindin í samfélaginu getur maður líka spurt sig: Er hert innheimta og samdráttur í námslánakerfinu til þess fallið að viðhalda og auka jafnrétti til náms? Er útilokun á 25 ára og eldri nemendum í bóknámi framhaldsskóla og fækkun þar um 800–900 nemendaígildi til þess fallin að tryggja það ákvæði sem er í lögum um að menn geti stundað nám óháð búsetu og óháð efnahag? Skilar sú meðferð í frumvarpinu á framhaldsdeildum út um landið allt, sem hafa verið góðir sprotar og eflt aðgengi að námi fyrir hinar dreifðari byggðir, því til þessara staða að þetta hafi verið rétt skref, að reyna að auka menntunarstig úti á landi með því að styrkja þessar deildir? Svörin við öllum þessum spurningum er nei.

Svo bætist náttúrupassinn við sem er enn einn nefskatturinn lagður á þjóðina til að geta veitt ákveðna þjónustu. Það er út af fyrir sig sérkapítuli að ræða um hvernig allur aðdragandinn að náttúrupassa hefur verið, öll þau ósköp sem gengu hér á þegar fyrri ríkisstjórn reyndi að hækka virðisaukaskatt á gistingu og þegar var verið að taka gistináttagjald eða þegar reynt var að draga til baka fyrirgreiðslu vegna bílaleigubíla sem sett var á fyrir hrun vegna gengis krónunnar. Því var öllu hafnað af minni hlutanum á þeim tíma eða stjórnarandstöðunni en nú eru þeir að reyna að koma með þetta allt inn. Þetta er dapurlegt vitni um það hvernig hv. Alþingi vinnur stundum.

Í tengslum við ferðaþjónustuna snýst ein tillaga minni hlutans um hækkun á framlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um 600 millj. kr. Það er viðurkenning á því að ekki verður lengur beðið með að fara í lagfæringar á ákveðnum stöðum, menn hafa ekki tíma til að bíða eftir þeim náttúrupassa sem virðist vera í miklum ógöngum hjá hæstv. ráðherra núna.

Ég get haldið áfram. Er millifærsla hinnar svokölluðu leiðréttingar líkleg til að bæta hag þeirra sem minnst hafa í samfélaginu? Það eru aðgerðir sem eru miðaðar við afmarkaðan hóp sem er skilgreindur sem láneigendur, eigendur verðtryggðra lána. Við skulum ekki gera lítið úr því að margir munu njóta góðs af sem á þurfa að halda en hvað með þann hóp sem stendur verst og boðað var að yrði sinnt, sem eru leigjendur og búseturéttarhafar? Það er komið fram að jólum. Ég hef ekki séð neitt frumvarp eða neina tillögu um að koma til móts við þann hóp.

Ef við horfum til baka og skoðum kjarasamningana sem gerðir voru fyrir ári og framlag ríkissjóðs til þeirra og aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til, og hér varð mikil umræða um, það var ekki afgreitt fyrr en í lok vorþings, um hvað snerist það? Einnar krónu lækkun á bensínskatti eða orkuskatti, bensín og dísil. Trúir því einhver í þessum sal að sú króna hafi skilað sér, þar sem álögur hafa hækkað á sama tíma og við höfum fengið vegna gengisbreytinga og lækkunar á heimsmarkaðsverði gríðarlega lækkun á olíu og bensíni, að sú króna hafi skilað sér sérstaklega í vasa allra neytenda á Íslandi? Eða 20 kr. lækkun á rauðvínsflöskunni? Það voru aðgerðirnar sem ríkisstjórnin greip til í kjarasamningunum. Láglaunafólkið tók á sig að reyna að berjast gegn verðbólgunni en það mun ekki una því að fara í gegnum aðra kjarasamninga með slíku samkomulagi eins og þá var gert. Reykjavíkurborg aftur á móti og mörg sveitarfélög úti um allt land hurfu frá öllum sínum gjaldskrárhækkunum og lögðu gríðarlega mikið til varðandi það að hemja verðbólguna og eiga heiður skilinn fyrir það.

Ég get haldið áfram. Húsnæðismál, jöfnun á stöðu leigjenda og eigenda. Hvernig ætlum við að leysa vandann varðandi fyrsta húsnæðið, þá sem eru að kaupa í fyrsta skipti? Hvernig eiga þeir sem lakast standa yfir höfuð að ná því að koma sér upp þaki yfir höfuðið, hvort sem er í leiguhúsnæði eða eignaríbúð? Í þessu frumvarpi eru engar lausnir varðandi það. Engar tillögur eru komnar til þingsins um þetta og liðin næstum því tvö ár síðan ríkisstjórnin tók við. Það er hægt að kenna okkur um ýmislegt en það er ekki hægt að kenna okkur um að hafa tafið fyrir nýrri ríkisstjórn. Síðan erum við með fæðingarorlofið sem hefði þurft að breyta til baka og bæta. Krónutalan í fæðingarorlofi var jú hækkuð lítillega, en ekkert annað.

Við getum svo skoðað þann hluta sem snýr að atvinnulífinu og öllu í kringum það og hvort verið sé að styrkja menntakerfið, efla og auka menntun í landinu til að styrkja atvinnulífið og fjölbreytni þess og auka tekjurnar til lengri tíma. Er það gert með því að fækka nemendaígildum um 800–900 í framhaldsskólum? Er það gert með því að taka út vinnustaðanámssjóð? Sem betur fer er búið að skila því framlagi inn aftur.

Minni hlutinn hefur í þessum efnum lagt fram ítarlegar tillögur þar sem eru hækkanir á hinu græna hagkerfi, hækkanir til menntamála og um framlög til að styrkja kerfið, bæði til rekstrar og til rannsókna. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Það er ekki hægt í svona stuttri ræðu að fara yfir allt sem þyrfti að ræða. Við getum skoðað líka hvernig farið er með virkniúrræði og vinnumarkaðsúrræði, nú þegar við erum að ná atvinnuleysinu niður og vitum að sá hópur sem situr þar eftir þarf sérstaka aðhlynningu til að tryggja að hann verði ekki varanlega utan vinnumarkaðar. Þá leyfa menn sér að lækka framlög til Vinnumálastofnunar og til VIRK, eða réttara sagt, fara ekki af stað með þau framlög eins og samið var um, gefa örlítið til baka en allt of lítið. Þess vegna eru tillögur frá minni hlutanum um að stórbæta framlög þar, bæði til Vinnumálastofnunar 200 millj. kr. og í Atvinnuleysistryggingasjóð til að hverfa frá styttingu bótatímabilsins, 1 þús. millj. kr.

Við getum á sama tíma skoðað ástandið almennt í samfélaginu og aðgerðir ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum sem hafa verið afar tilviljunarkenndar og raunar háðar geðþóttaákvörðunum og vondri stjórnsýslu. Það sjáum við nánast í hverri viku. Sumir hafa sagt að við þurfum enga stjórnarandstöðu vegna þess að ríkisstjórnin kemur sér í hvern vandann á fætur öðrum, nú síðast með skyndiákvörðunum einstakra ráðherra, síðast hæstv. forsætisráðherra í sambandi við staðsetningu í lögreglustjóraembættum og sýslumannsembættum. Endalausar geðþóttaákvarðanir, t.d. fyrir ári síðan með sms-skilaboðum þegar verið var að deila út peningum.

Stærsta deilan núna er læknadeilan og laun heilbrigðisstarfsfólks. Maður spyr bara þeirrar einföldu spurningar sem oft hefur verið spurð hér í þingsal: Ætlar ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn að láta það henda að hér verði gengið frá fjárlögum fyrir árið 2015, farið inn í jólahátíðina og jafnvel nýja árið án þess að samningar náist við lækna? Það er afar erfitt að hugsa sér þá stöðu með öllum þeim afleiðingum sem þar geta komið til. Hallinn frá árinu 2013 var upp á 1.584 millj. kr., menn settu svo inn 1,7 milljarða. Aftur er halli á þessu ári áætlaður um 1 þús. millj. kr., það á að setja inn 1 þús. millj. kr. Er til of mikils ætlast að við fáum skýr svör um að hallinn verði ekki dreginn frá rekstrarfé? Og jafnvel þó það verði þannig og milljarður komi inn þá vantar meira. Þess vegna gerir minni hlutinn tillögu um að bæta við til rekstrar um 1.250 millj. kr., og það verði þannig rúmir 2,2 milljarðar sem fari í heilbrigðismálin og til Landspítalans. Ég held að það sé lífsspursmál. Sama gildir um viðhald, sama gildir um að gefa út skýra áætlun um það hvernig menn ætla að byggja nýjan spítala. Það skiptir miklu máli. En það skiptir líka miklu máli að gleyma ekki stofnunum úti á landi. Við vorum með áform um uppbyggingu í Stykkishólmi, á Akranesi, á Suðurlandi. Ekkert af því virðist vera inni í þessu frumvarpi, ekkert. Það vantar mjög víða upp á.

Því miður eru þessar 20 mínútur liðnar og margt órætt en ég fæ kannski tækifæri til að bæta einhverju við í andsvörum. Menntamálin eru náttúrlega gríðarlega stór pakki og þar er unnið þvert á allar stefnuyfirlýsingar í hvítbók og annars staðar, unnið að kerfisbreytingum án þess að það sé nokkurt samráð eða umræða í þjóðfélaginu um það hvernig eigi að gera það eða hvaða afleiðingar það hefur.

Loks getum við nefnt Ríkisútvarpið þar sem við í minni hlutanum höfum gert þessa einföldu kröfu: Haldið útvarpsgjaldinu óbreyttu og látið það renna til Ríkisútvarpsins. Það er allt sem beðið er um (Forseti hringir.) og ég vona að stjórnarmeirihlutinn verði við þeirri ósk.