144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:43]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir mjög góða ræðu og sérstaklega fyrir þann hluta hennar sem var um lekakenningu eða brauðmolakenningu, eða hvað sem þetta furðulega fyrirbæri heitir, sem segir það að ef aukið er undir þá sem mest eiga og atvinnulífið og búinn til meiri arður og peningar þá græða þeir sem eru á gólfinu og þeir sem í raun vinna vinnuna fyrir þá sem græða mest. Ég er einn af þeim sem hafa verið allt sitt líf í láglaunastarfi og ég hef aldrei orðið var við það að ég hafi fengið einhvern hluta af þeim arði sem fyrirtækin sem ég hef unnið hjá hafa náð sér í. Það er bara þannig. Ég hef verið á sultarlaunum alla tíð og ofboðslega lág laun virðast vera einkenni, og hefur verið einkenni, á Íslandi. Það er til skammar fyrir okkur.

Það sem hefur vakið athygli mína eftir að ég varð þingmaður er til dæmis það sem hv. þingmaður kom inn á áðan, að skattar voru lækkaðir í fyrra á milliþrepið, 2. þrepið, og ekkert gert fyrir þá sem voru þar undir. Það virðist alltaf vera þannig, og það er eins í þessu frumvarpi, að ekkert er gert, finnst mér, til að bæta hag þeirra sem verst standa í samfélaginu. Þá er ég að tala um launafólkið sem vinnur til dæmis í fiskvinnslu eða er í umönnunarstörfum á spítölum og hjúkrunarheimilum, m.a. þau störf sem og verslunarstörf. Þetta eru lág laun og það er ekkert gert til að mæta þeim.

Ég er ekkert mótfallinn því að breyta virðisaukaskattskerfinu, af því að talað var um að einfalda það. En ég á mjög erfitt með að sjá, ég hef kannski ekki nógu mikið vit á því, einhverja einföldun í því sem er að gerast núna. Reyndar er mjög gott þegar verið er að taka vörugjöld og lækka efra þrepið eitthvað en það gagnast ekki hinum lægst launuðu.

Mig langar spyrja þingmanninn, hann getur kannski gefið mér einhver svör: Hvernig stendur á því að það fólk sem minnst á í þessu þjóðfélagi og stendur höllum fæti verður alltaf utanveltu?