144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Ég deili þessum skoðunum um brauðmolakenninguna sem ég kom ítarlega inn á. Í því samhengi hefði ég náttúrlega átt að eyða tíma í að ræða um þróunaraðstoðina sem er dæmi um það hvað Ísland, sem eitt af ríkustu löndum heims, leggur til til þess að minnka misskiptinguna í heiminum. Við vorum komin upp í 0,3% þar sem markmið Sameinuðu þjóðanna er 0,7% en við erum að síga niður í 0,21–0,22%, þrátt fyrir að hafa sameiginlega gert áætlanir um það hvernig við ætluðum að standa við þetta. Við hopum alltaf um leið.

Ég hef það á tilfinningunni að ekki hafi tekist að ná sátt í samfélaginu um að það eigi að hífa upp lægstu laun og tryggja að hér búi enginn við fátækt. Það eru alltaf einhverjir sem þurfa að stíga á axlirnar á þeim sem eru lægst launaðir. Við höfum líka þurft að búa við það, sem er kannski veikleiki launastéttanna í sjálfu sér, að jólagjafir fyrirtækja hafi oft vakið mikla hrifningu. Menn fá glaðning í desember og það verður mikill fögnuður yfir því að það skuli hafa verið gefið örlítið meira, í staðinn fyrir að launin séu hækkuð. Af því að hv. þingmaður nefnir fiskvinnsluna hefur það legið fyrir í langan tíma og var meðal annars ástæðan fyrir því að menn blönduðu fiskvinnslunni inn í þegar verið var að reikna út veiðileyfagjaldið, vegna þess að hún hefur að mörgu leyti staðið mjög vel. Það er líka verið að flytja hana í land. Og það er af því að menn hafa unnið frábæra vinnu. En það er ekki verið að skila því til launþeganna í fiskvinnslunni, ekki nema með einhverjum jólabónus sem er frábær út af fyrir sig en er kolröng leið til að tryggja að menn hafi jafna og örugga og góða afkomu, sem þarf auðvitað að vera fyrir það fólk sem vinnur í fiskvinnslu eins og allt annað fólk. Í því sambandi er líka gaman að skoða það sem er náttúrlega alveg ótrúlegt, þegar skorturinn á fiski verður til þess að jafnvel stærstu fyrirtækin á Íslandi fá hundruð milljóna úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að losa fólk við það að verða atvinnulaust vegna hráefnisskorts. Þetta er náttúrlega einn skrípaleikurinn enn í þessu samfélagi þar sem græðgin virðist grípa suma.