144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ruglar mjög mörgu saman þarna og þessi brauðmolakenning er eitthvað sem held ég að sé fyrst og fremst til í hugum íslenskra vinstri manna. En við getum rætt það seinna og það vildi ég gjarnan gera.

Ég er annars vegar að vísa í viðtal við fyrrverandi fjármálaráðherra sem sagði að auðlegðarskatturinn yrði ekki endurnýjaður og síðan lögin sjálf því að þetta er tímabundinn skattur.

Ég vek athygli á tvennu. Í fyrsta lagi, af því að hér er mikið talað um réttlæti, þá tók síðasta ríkisstjórn einn hóp fólks út sem átti eignir, lífeyriseignir sem eru gulltryggðar, ríkistryggðar. Það fólk þurfti ekki að borga auðlegðarskatt.

Síðan talar hv. þingmaður mjög um að ýmsir skattar og gjöld séu að hækka. En hann leggur til að hér verði hækkaður skattur, nefskattur, umfram það sem er í fjárlagafrumvarpinu og þá er ég að vísa í útvarpsgjaldið. Hann leggur það alveg sérstaklega til.