144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi samhengið á milli menntunar, rannsókna og hagsældar, eins og ég segi. Ég vil kalla það hagsæld frekar en hagvöxt vegna þess að mér finnst skipta meira máli að við skoðum í víðtækri merkingu hvernig líðan þjóðarinnar og afkoman er fyrir heildina.

Skoðum aftur það sem hv. þingmaður dró hér fram. Það er annars vegar orð, loforð — hvort sem er í stefnuyfirlýsingu, stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra eða í ræðum hans á 17. júní — og svo hins vegar efndirnar. Hvernig „harmonera“ fyrirheitin við til dæmis það sem er að birtast núna í sambandi við menntastefnuna í fjárlögum? Við biðum eftir því meðal annars í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að fá hvítbókina. Við biðum með töluverðri eftirvæntingu vegna þess að það skiptir máli að fá slíkt stefnuplagg frá ráðherra. Þar er sett inn læsi og þar er sett inn aukin skilvirkni. Það er nú ekki minnst á styttingu, hvað þá að það sé eitthvað um framkvæmd styttingar, en verið er að gefa í skyn að hún sé nauðsynleg.

Síðan kemur framkvæmdin. Hún er að útiloka ákveðinn hóp úr bóknámi í framhaldsskóla, færa yfir í framhaldsfræðsluna eða yfir í símenntunarmiðstöðvar eða yfir í frumgreinadeildir, en það fylgja engir peningar með. Það er hvergi fjármagn til þess að fara þar inn. Hvað þá með rannsóknirnar sem hv. þingmaður kom að. Þó að við fögnum hverri krónu sem fer í menntamálin þá sjáum við þessa stefnu eða stefnuleysi, hv. þingmaður nefndi Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þar sem við höfum ekki hugmynd um á hvaða vegferð hæstv. ráðherra er. Það sama gildir með Háskólann á Hólum.

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns og fyrrverandi menntamálaráðherra á þessum framgangi, vegna þess að einn kaflinn í hvítbókinni heitir Samráð og samstarf. Maður spyr: Um hvað? Það hefur ekkert samráð átt sér stað í pólitíkinni og við erum að taka hér ákvarðanir eftir nokkra daga um stórfelldar breytingar á menntakerfinu.